Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afturkallar launasamninga fyrrum ríkislögreglustjóra

29.08.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur afturkallað launasamninga sem fyrrverandi ríkislögreglustjóri gerði við aðstoðar- og yfirlögregluþjóna sína fyrir ári síðan. Að mati embættisins voru samningarnir ekki í samræmi við lög. Yfirlögregluþjónar hyggjast fara með málið fyrir dómstóla.

Yfirlögregluþjónar með betri kjör en lögreglustjórar

Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði nýtt launasamkomulag við yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna embættisins skömmu áður en hann vék úr embætti í fyrra. Samkvæmt því færðust fimmtíu fastar yfirvinnustundir inn í dagvinnulaun, og mynduðu þar með mun meiri lífeyrisréttindi. Lögreglustjórafélags Íslands gerði athugasemdir við þetta, þar sem laun lögreglumanna hjá embætti ríkislögreglustjóra urðu þar með hærri en laun flestra lögreglustjóra landsins. 

Búið að tilkynna starfsmönnum ákvörðunina

Í svari ríkislögreglustjóra til fréttastofu segir að með vísan til ákvæða laga, kjarasamnings og stofnanasamnings, verður launasamsetningu og launaröðun nú breytt, þannig að launaröðun verði í samræmi við gildandi réttarheimildir að mati embættisins. Þeim störfum sem um ræðir hefur verið grunnraðað upp á nýtt út frá stofnanasamningi og viðauka við hann. Þá voru metnir inn persónubundnir þættir, sem og umfang stjórnunarstarfa. Starfsmönnum hefur verið tilkynnt að þetta sé lokaniðurstaða málsins, en þeir höfðu andmælt þessum áformum. 

Fara með málið fyrir dómstóla

Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn er ósáttur við þessa niðurstöðu og ætlar með málið fyrir dómstóla. „Ég mun ekki sætta mig við þetta,“ segir Óskar. „Ég mun ásamt mínum lögfræðingi ræða það eftir helgina að fara í mál út af þessu,“ segir Óskar. Hann segist ekki getað svarað fyrir aðra sem eru í sömu stöðu en veit til þess að fleiri ætli í mál.

Óskar segir að þær forsendur sem gefnar voru í upphafi fyrir því að launasamkomulagið væri ólögmætt séu ekki lengur til grundvallar. „Þá eru bara teknar upp nýjar málaástæður fyrir sömu ákvörðun,“ segir Óskar. „Þetta sýnir bara það sem ég hef verið að segja; Ákvörðunin lá fyrir frá upphafi, hver niðurstaðan ætti að verða,“ segir Óskar. 

Hann segist telja að þrátt fyrir væntanleg málaferli yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna gegn yfirmanni sínum komi það ekki til með að hafa áhrif á dagleg störf þeirra.