Ætla að halda lífi í Abe-ríkisstjórninni án Abe

29.08.2020 - 18:06
Erlent · Japan · Shinzo Abe
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Yoshihide Suga, einn æðsti embættismaður ríkisstjórnar Japans, er sagður líklegur arftaki Shinzo Abe, fráfarandi forsætisráðherra landsins.

Suga, sem er 71 árs, hefur staðið þétt við bak Abe um árabil. Sennilegt er að Suga muni standa vörð um efnahagsstefnu Abe, taki hann við embætti. 

Abe hefur þjáðst af sáraristilbólgu síðastliðin ár. Hann sagði af sér vegna veikinda 2007 en tók aftur við embætti 2012. Veikindi Abe hafa hins vegar versnað að undanförnu og því taldi hann skynsamlegast að láta af embætti. 

Suga hefur fullyrt að hann hafi ekki áhuga á forsætisráðherraembættinu. Mikil fjölmiðlaumfjöllun um Suga á undanförnum sólarhring bendir þó til hins gagnstæða. 

„Þeir ætla virkilega að reyna að fá Suga til þess að taka við af Abe og halda lífi í Abe-ríkisstjórninni án Abe,“ hefur fréttastofa Reuters eftir Koichi Nakano, prófessor í stjórnmálafræði við Sophia-háskólann í Tókýó. 

Abe mun sitja áfram í embætti þangað til arftaki hefur verið fundinn. Nokkrir hafa lýst yfir áhuga á embættinu en venju samkvæmt ætti kosning að fara fram innan Frjálslynda demókrataflokksins. Þar sem Abe sagði af sér á miðju kjörtímabili getur flokkurinn þó valið sér nýjan leiðtoga á skjótvirkari hátt; því undir sérstökum kringumstæðum er heimilt að takmarka atkvæðagreiðsluna við meðlimi flokksins sem sitja á þingi auk þriggja fulltrúa úr hverju héraði landsins. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi