Stuðningur við sameiningu
Það var nokkuð sannfærandi meirihluti fyrir því að sameina fjögur sveitarfélög fyrir austan, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðahrepp, Seyðisfjörð og Djúpavogshrepp. Kosið var í lok október í fyrra. Héraðsbúar voru áhugasamastir því tæplega 93% voru hlynnt sameiningu. Í litlu hreppunum, Borgarfirði eystri og á Djúpavogi voru um 64% með sameiningu. Sveitarfélagið nær til fjögurra byggðakjarna, Egilsstaða og Fellabæjar, Borgarfjarðar eystri, Seyðisfjarðar og Djúpavogs. Íbúafjöldi nýja sveitarfélagsins er um 5000 manns.
Öflugra sveitarfélag
Björn Ingimarsson, formaður undirbúningsstjórnar nýs sveitarfélags og bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, segir að áhugi hafi verið meðal íbúa í þessum sveitarfélögum á að sameinast til efla þau meðal annars í málum sem eru knýjandi svo sem samgöngumálum og atvinnumálum. Að byggja upp öflugra sveitarfélag.
„Við höfum verið hvert um sig að berjast fyrir ákveðnum málum. Eins og til dæmis samgöngubótum milli þessara sveitarfélaga. Nú verður þetta innan eins sveitarfélags og við leggjumst öll á eitt.“
Hann segir að brýnustu samgöngubæturnar séu göng um Fjarðarheiði og bætur á veginum um Öxi milli Djúpavogs og Héraðs. Einnig sé mikilvægt að klára vegabætur milli Borgarfjarðar og Héraðs.