Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vald til heimastjórna í nýju sveitarfélagi

Mynd: RÚV / RÚV
Búist er við að fimm flokkar bjóði fram í nýju sveitarfélagi á Austurlandi sem jafnframt verður stærsta sveitarfélag landsins að flatarmáli. Framboðsfrestur rennur út á morgun. Kosið verður 19. september og einnig í fjórar heimastjórnir sem fá vald til að afgreiða tiltekin mál í sinni heimabyggð.

Stuðningur við sameiningu

Það var nokkuð sannfærandi meirihluti fyrir því að sameina fjögur sveitarfélög fyrir austan, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðahrepp, Seyðisfjörð og Djúpavogshrepp. Kosið var í lok október í fyrra. Héraðsbúar voru áhugasamastir því tæplega 93% voru hlynnt sameiningu. Í litlu hreppunum, Borgarfirði eystri og á Djúpavogi voru um 64% með sameiningu. Sveitarfélagið nær til fjögurra byggðakjarna, Egilsstaða og Fellabæjar, Borgarfjarðar eystri, Seyðisfjarðar og Djúpavogs. Íbúafjöldi nýja sveitarfélagsins er um 5000 manns.

Öflugra sveitarfélag

Björn Ingimarsson, formaður undirbúningsstjórnar nýs sveitarfélags og bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, segir að áhugi hafi verið meðal íbúa í þessum sveitarfélögum á að sameinast til efla þau meðal annars í málum sem eru knýjandi svo sem samgöngumálum og atvinnumálum. Að byggja upp öflugra sveitarfélag.

„Við höfum verið hvert um sig að berjast fyrir ákveðnum málum. Eins og til dæmis samgöngubótum milli þessara sveitarfélaga. Nú verður þetta innan eins sveitarfélags og við leggjumst öll á eitt.“

Hann segir að brýnustu samgöngubæturnar séu göng um Fjarðarheiði og bætur á veginum um Öxi milli Djúpavogs og Héraðs. Einnig sé mikilvægt að klára vegabætur milli Borgarfjarðar og Héraðs.

Mynd með færslu
Sveitarfélögin sem voru sameinuð

5 framboð

Fyrstu sveitarstjórnarkosningar í hinu nýja sveitarfélagi verða 19. september. Framboðsfrestur rennur út á hádegi á morgun. Útlit er fyrir að fimm flokkar bjóði fram. Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn, Miðflokkur og Austurlistinn. Þessir flokkar munu stýra sveitarfélaginu fram að næstu sveitarstjórnarkosningum á landsvísu sem verða í lok maí 2022.

Heimastjórnir í byggðakjörnunum

Nýja sveitarfélagið er það stærsta að flatarmáli eða um 11 þúsund ferkílómetrar. Um 155 kílómetrar eru til dæmis milli Borgarfjarðar eystri og Djúpavogs. Björn segir að fá upphafi hafi verið horft til þess að tryggja vægi þessara byggðakjarna. Að þjónustan myndi ekki sogast inn á einn stað.

„Til þess að tryggja þetta útfærðum við svokallaða heimastjórnarleið. Hugsunin með henni er að það verði heimastjórnir sem verði kosið í á hverjum stað samhliða sveitarstjórnarkosningum. Eingöngu íbúar á viðkomandi svæði eru kjörgengir,“ segir Björn. Tveir séu þannig kosnir í beinni kosningu í viðkomandi heimastjórn í byggðakjörnunum fjórum. Þriðji fulltrúi í heimastjórnunin á jafnframt sæti í sveitarstjórninni. „Hugsunin með þessum heimastjórnum er sú að mál sem snerta nærsvæðið verði til afgreiðslu í þessum stjórnum. Það sem vegur kannski þyngst í þessu og kannski byltingarkenndast er að við ætlum þessum heimastjórnum að afgreiða t.d. deiliskipulag.“

Björn segir að þessar stjórnir taki ákvarðanir í ýmsum öðrum málum. Eftir því sem næst verður komist hefur ekki áður verið komið á heimastjórnum sem hafa afgreiðsluvald.

„Ég er nokkuð sannfærður um og hef fulla trú á því að þetta muni auka skilvirkni í stjórnsýslunni og að meiri líkur séu á að við tryggjum að íbúar alls svæðisins taki virkan þátt í starfsemi samfélagsins,“ segir Björn Ingimarsson.

Hvað á barnið að heita?

En nýja sveitarfélagið hefur ekki fengið nafn. Það kemur í hlut nýrrar sveitarstjórnar, sem á að taka við 4. október, að ákveða endanlegt nafn. Í júní á þessu ári var efnt til nafnakönnunar eða leiðbeinandi kosninga um nýtt nafn. Niðurstaðan er að flestir telja að nafnið Múlaþing sé við hæfi. Í öðru sæti var nafnið Drekabyggð og í því þriðja var nafnið Austurþing. Það er því líklegt að nafnið Múlaþing verði fyrir valinu hjá nýrri sveitarstjórn.