Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Styrkja þarf öryggisnetið, segir Drífa Snædal

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Það er áhyggjuefni að ráðamenn skuli teikna upp þá mynd að fólk vilji ekki vinna, segir Drífa Snædal forseti ASÍ. „Það versta sem við gerum í stöðunni er að missa einstaklinga í litla virkni og fátækt með þeim niðurrífandi áhrifum sem það hefur á einstaklinga og þar með samfélagið allt.“

Mat Drífu er að ekki sé hægt að ætlast til að fólk taki hvaða atvinnu sem er. „Manneskjan sem hefur unnið við skrifstofustörf mestan sinn starfsaldur en býðst tímabundin vinna við slátrun, hefur enga þekkingu á því sviði og ekki líkamlega burði í slíka erfiðisvinnu,“ segir Drífa.

Mikilvægt sé að styrkja öryggisnetið til að tryggja afkomu og koma í veg fyrir að kreppan verði dýpri og lengri en hún þurfi að vera. Spurnir hafa verið af því að verið sé að bjóða störf sem fara á svig við reglur vinnumarkaðarins, svokallaða núlltímasamninga. Fólki er jafnvel gert að færa sig um set milli landshluta.

Drífa segir þegar fullyrt er að til séu störf sem fólk vilji ekki vinna þurfi að greina frá hvaða störf það séu. Jafnframt þurfi atvinnurekendur að tilkynna Vinnumálastofnun um þau störf sem í boði séu enda sé eitt af hlutverkum hennar að miðla störfum.

Fjármálaráðherra þarf líka að tala við launafólk

Drífa segir fjármálaráðherra þurfa að tala við launafólk á Íslandi, það sé ekki nóg að skilgreina þarfir fólksins og landsins með því að tala eingöngu við atvinnurekendur. Henni þykir ótrúlegt að láta þau orð falla að fólk sé latt og vilji ekki vinna og að vinnuletjandi sé að hækka bætur.

Ljós sé að ekki séu til störf fyrir þau allt að 20 þúsund sem búist er við að verði atvinnulaus með haustinu. Þegar Drífa er spurð hvort henni hugnist að taka upp borgaralaun í stað atvinnuleysisbóta segir hún tímabært að hugsa út fyrir kassann, meginmarkmiðið sé að tryggja afkomu fólks.

„Það er hægt að ræða alls konar útgáfur af því, nærtækast er þó að styrkja það öryggisnet sem við höfum búið til,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ að lokum.