Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja tilraunir í Suður-Kínahafi ógn við öryggi og frið

28.08.2020 - 02:10
epaselect epa05918580 An aerial view of Southwest Cay islet, part of the Spratly islands, being claimed by Vietnam in the disputed South China Sea, 21 April 2017. According to news reports, President Rodrigo Duterte has ordered the Armed Forces of the
 Mynd: EPA
Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir flugskeytatilraunir Kínverja í Suður-Kínahafi ógna friði og öryggi á svæðinu. Tilraunirnar séu einnig í trássi við samkomulag ríkja við hafsvæðið frá árinu 2002, þar sem þau samþykktu að forðast aðgerðir sem gætu flækt eða vakið upp deilur og haft áhrif á frið og stöðugleika, segir í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins. 

Kínverjar hafa undanfarinn áratug reist umdeild hernaðarmannvirki á manngerðum eyjum í Suður-Kínahafi til þess að eigna sér hafsvæði sem önnur ríki gera tilkall til.

Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að Bandaríkin hafi hvatt kínversk stjórnvöld til þess í júlí að draga úr hernaðarbrölti á hafsvæðinu. Þess í stað hafi Kínverjar ákveðið að gera enn frekari æfingar og flugskeytatilraunir.

Fyrr í gær lýstu stjórnvöld í Peking reiði sinni vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar um að setja á þriðja tug kínverskra ríkisfyrirtækja á svartan lista í Bandaríkjunum vegna umsvifa í Suður-Kínahafi. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar gróft inngrip í kínversk innanríkismál. Gripið verði til harðra aðgerða til þess að verja réttindi og hagsmuni kínverskra fyrirtækja og einstaklinga.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV