
Segja tilraunir í Suður-Kínahafi ógn við öryggi og frið
Kínverjar hafa undanfarinn áratug reist umdeild hernaðarmannvirki á manngerðum eyjum í Suður-Kínahafi til þess að eigna sér hafsvæði sem önnur ríki gera tilkall til.
Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að Bandaríkin hafi hvatt kínversk stjórnvöld til þess í júlí að draga úr hernaðarbrölti á hafsvæðinu. Þess í stað hafi Kínverjar ákveðið að gera enn frekari æfingar og flugskeytatilraunir.
Fyrr í gær lýstu stjórnvöld í Peking reiði sinni vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar um að setja á þriðja tug kínverskra ríkisfyrirtækja á svartan lista í Bandaríkjunum vegna umsvifa í Suður-Kínahafi. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar gróft inngrip í kínversk innanríkismál. Gripið verði til harðra aðgerða til þess að verja réttindi og hagsmuni kínverskra fyrirtækja og einstaklinga.