Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grunur um E.coli í neysluvatni á Kirkjubæjarklaustri

28.08.2020 - 08:51
Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Hartvigsson - Gamli bærinn
Vatnsveitan á Kirkjubæjarklaustri hefur tilkynnt að hugsanlega sé E.coli-baktería í sýni sem tekið var úr vatnsveitukerfi bæjarins á þriðjudag. Niðurstöður forræktunar sýndu fram á að bakteríuna væri að finna í vatninu. Endanlegar niðurstöður liggja fyrir í dag.

Í tilkynningu á vef Kirkjubæjarklausturs segir að nú þegar hafi endurtektarsýni verið tekin víða úr vatnsveitunni. Íbúum á svæðinu er ráðlagt að sjóða neysluvatn þar til niðurstöður liggja fyrir. Þetta á sérstaklega við um viðkvæma hópa. 

Sumar kólíbakteríur eru eiturmyndandi og geta í sumum tilfellum valdið alvarlegum veikindum í fólki. Á vefsíðu Matvælastofnunar segir að fólk geti smitast af eiturmyndandi E.coli-bakteríum með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við dýr eða umhverfi menguðu af saur þeirra. Niðurgangur er helsta einkenni E.coli-sýkingar. 

Ef mengun af E.coli eða saurkokkum er staðfest í neysluvatni hér á landi ber heilbrigðiseftirlitinu að tilkynna notendum og heilbrigiðsyfirvöldum á svæðinu án tafar og stöðva drefingu eða takmarka notkun vatnsins.