Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Flókið að skipuleggja sláturtíðina í ár

28.08.2020 - 09:31
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Starfsmannastjóri Norðlenska segir töluvert flóknara að skipuleggja sláturtíðina nú en undanfarin ár. Um helmingur starfsmanna þessa vertíðina kemur erlendis frá, það hlutfall er venjulega yfir 80%. Rætt hefur verið hvort skima eigi alla sem starfa á vertíðinni.

Forsvarsmenn sláturhúsa höfðu í sumar áhyggjur af mönnun í sláturtíðinni vegna COVID enda kemur meginþorri starfsmanna iðulega erlendis frá. 

Sjá einnig: Snúið að manna sláturtíð vegna faraldursins

Það virðist þó hafa ræst úr og sláturtíðin í þann mund að hefjast. „Það gekk ágætlega að manna sláturtíðina. Við vorum aðeins seinna á ferðinni með þetta heldur en undanfarin ár. Það teygðist aðeins lengra inn á sumarið því við erum að reyna að taka fleiri innanlands í vinnu og þeir eru ekki tilbúnir til að lofa sér eins snemma og útlendingarnir. Þeir eru kannski að bíða eftir því að fá ótímabundna vinnu frekar, áður en þeir taka að sér tímabundna vinnu“ segir Jóna Jónsdóttir, starfsmannastjóri hjá Norðlenska. 

Færri erlendis frá til starfa hjá Norðlenska

Um 100 starfsmenn bætast við hjá Norðlenska nú í sláturtíðinni, um helmingur þeirra kemur erlendis frá en venjulega er það hlutfall allt að 85%. Samkvæmt upplýsingum frá Sláturfélagi Suðurlands sóttu aðeins fleiri en venjulega um störf sem búsettir eru hér á landi. Um hundrað starfsmenn koma erlendis frá bæði hjá Kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki og Sláturhúsi KVH á Hvammstanga, þar er hlutfall þeirra sem búsettir eru hér á landi svipað og áður. 

Allt á fullt þegar starfsfólk losnar úr sóttkví

Sláturtíðin hefst örlítið seinna en vanalega hjá Norðlenska sem stafar af því að búið var að bóka fólkið í vinnu áður en 5 daga sóttkví kom til sögunnar. Jóna segir töluvert flóknara að skipuleggja sláturtíðina nú en áður enda þarf starfsfólk sem kemur erlendis frá að fara í tvöfalda sýnatöku og sóttkví á milli.

Hún segir fyrsta hópinn lausan úr sóttkví, fleiri hópar komi til landsins um helgina og vertíðin geti hafist að fullu þegar þeir losni úr sóttkví. Þótt vinnan sé skipulögð með aukna áherslu á sóttvarnir segir Jóna þau hafa miklar áhyggjur af því að smit geti komið upp enda sé sláturtíðin aðeins átta vikur og illgert að lengja hana.

„Við ræddum við heilbrigðisstofnunina og spurðum hvort það þyrfti að skima Íslendingana en þeir töldu ekki þörf á því á þessari stundu alla vega, en við tökum svo bara stöðuna aftur þegar nær dregur“ segir Jóna.