
Andlát barna vegna COVID-19 afar fátíð
Rannsóknin tók til COVID-sjúklinga á 138 sjúkrahúsum í Bretlandi. Innan við eitt prósent af þeim sem létust á tímabilinu sem um ræddi voru á barnsaldri. Greinin var birt í breska læknisfræðitímaritinu BMJ.
„Við getum verið nokkuð viss um að kórónuveiran ein og sér skaðar börn ekki að verulegu leyti [...] Stærstu skilaboðin eru þau að alvarleg veikindi eru sjaldgæf meðal barna með kórónuveirusýkingu og andlát eru afar fátíð,“ sagði Malcolm Semple, meðhöfundur greinarinnar á blaðamannafundi. Hann bætti við að foreldrar barna sem eru að hefja skólagöngu á ný eftir sumarfrí geti andað léttar.
Í rannsókninni var sjónum beint að 651 ungabörnum og ungmennum undir nítján ára aldri sem lögð voru inn á sjúkrahús vegna kórónuveirusýkingar á tæplega sex mánaða tímabili. Sex börn létust á tímabilinu en þau voru öll með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. Dánartíðnin í þessum aldurshópi var margfalt lægri en dánartíðni sjúkrahúsliggjandi COVID-sjúklinga heilt yfir, sem var 27 prósent.
Þrátt fyrir að börn séu líklegri til þess að ná sér af veirunni, þá geta þau vissulega sýkst. Donald Trump Bandaríkjaforseti er einn þeirra sem hefur ranglega staðhæft að börn væru svo gott sem ónæm fyrir veirunni. Þau eru hins vegar oftar einkennalítil eða einkennalaus og eiga betri möguleika á að ná sér.