Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Almenn aðhaldskrafa tryggi betri nýtingu fjármuna 

Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.  Mynd: althingi.is - skjáskot
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að almenn aðhaldskrafa hjá hinu opinbera sé leið til að tryggja að fjármunir nýtist sem best á þessu ári og komandi árum. Þetta kom fram í máli hans á Alþingi í gær þegar hann var spurður um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að halda til streitu aðhaldskröfum sem kynntar voru í fjármálaáætlun í fyrra.    

„Við verðum einfaldlega að tryggja að alls staðar í ríkisrekstrinum, þar sem við erum að fjármagna rekstur með nýjum lántökum á hverjum degi, sé verið að hámarka nýtingu fjármunanna. Almenn aðhaldskrafa sem gerir kröfu um aðeins meira fyrir sama fjármagn er ein leið til að tryggja að það gangi eftir,“ sagði Bjarni. 

2 prósenta almenn aðhaldskrafa 

Í gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024 er mælt fyrir um 2 prósenta almenna aðhaldskröfu á starfsemi hins opinbera fyrstu þrjú árin, nema á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla þar sem aðhaldskrafan er 0,5 prósent og á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, sjúkratryggingar og dómstóla þar sem aðhaldskrafan er engin. 2 prósenta aðhaldskrafan nær meðal annars til málefnasviðs almanna- og réttaröryggis, en almannavarnir heyra undir það. Samkvæmt gildandi fjármálaáætlun áttu fjárheimildir málefnasviðsins að „lækka um 1,9 milljarða á áætlunartímabilinu til að uppfylla aðhaldskröfu fjármálaáætlunar“.  

Fram kemur í endurskoðaðri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að forsendur um útgjöld ríkissjóðs næstu árin séu í megindráttum í samræmi við forsendur gildandi fjármálaáætlunar fyrir árin 2020–2024 og innihaldi „allar fyrri ákvarðanir ríkisstjórnarinnar“. „Ekki er gert ráð fyrir auknu aðhaldi á tímabilinu umfram fyrri ákvarðanir og áformað að staðinn verði vörður um helstu tilfærslukerfi í núverandi mynd þar sem ríkisfjármálunum verður ætlað að vega upp á móti efnahagssamdrættinum,“ segir í greinargerð stefnunnar.  

Furðar sig á aðhaldskröfu á spítala, heilsugæslu og skóla 

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi þessa stefnu í umræðum um fjármálastefnuna í gær. „Af hverju stendur í þessari nýju fjármálastefnu að þið ætlið að halda í fyrirhugaða aðhaldskröfu á spítala og heilsugæslu? Erum við ekki í miðjum heimsfaraldri? Af hverju er haldið í sérstaka aðhaldskröfu á skólana í þessari nýju stefnu? Eru skólarnir ekki að drukkna í umsóknum, m.a. út af hinu sögulega atvinnuleysi? Af hverju er haldið í sérstaka aðhaldskröfu gagnvart listamönnunum, nýsköpun eða rannsóknum í miðjum Covid-faraldri?“ sagði hann.  

Bjarni Benediktsson sagði ríkisstjórnina hafa verið skýra með að ný útgjöld sem tengjast Covid-faraldrinum yrðu fjármögnuð. „Og við höfum sýnt það í verki strax á þessu ári að við höfum útvegað fjármagn til skóla, til heilbrigðisstofnana, í íþróttir, í listir, í nýsköpun, í rannsóknir. Allt höfum við fjármagnað með sérstökum fjárveitingum á þessu ári vegna þess að við sjáum að áhrifin birtast þar sem hv. þingmaður vill beina sjónum sínum.“ 

Þá tók fjármálaráðherra Landspítalann sem dæmi: „Segjum að reksturinn með ríkisframlagi, sértekjum og öllu saman liggi í kringum 70 milljarða; 0,5% aðhaldskrafa á 70 milljarða ríkisframlag, 0,5% eru 350 millj. kr. Það eru 350 milljónirnar sem viðkomandi þingmaður er í raun og veru að tala um. Á sama tíma erum við að leggja til milljarða til að fást við afleiðingar faraldursins. Ég ætla bara að segja að þegar ein ríkisstofnun veltir um 70 milljörðum er ekki óeðlileg krafa, þegar við verðum öll að leggjast á eitt við að nýta hverja einustu krónu eins vel og hægt er, að reyna að finna leiðir til að spara slíkar fjárhæðir. Það er gegn loforði um að allt sem leggst nýtt á viðkomandi stofnanir vegna faraldursins og er sérstaklega Covid-tengt, eins og við orðum það í almennri umræðu, verði fjármagnað.“ 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV