„Þetta er mjög sterk sýning, hvernig sem á það er litið,“ segir Vigdís Jakobsdóttir stjórnandi Listahátíðar. „Danshöfundurinn er að vinna með möguleika hreyfingar. Alveg sama hvernig líkaminn er höfum við möguleika að tjá okkur í gegnum hann. Þessi sýning snýst um möguleikana, en ekki það sem við getum ekki gert.“ Í sýningunni er farið inn að mörkum þess mannlega og verkið hefur vakið athygli fyrir hispurslausa og ögrandi framsetningu. „Þetta er á hæsta gæðastandard á heimsvísu, þú færð ekki flottari danssýningu,“ segir Vigdís. „Það skiptir ekki máli hvort dansararnir séu fatlaðir eða ekki, þetta stenst allan samanburð og er ein af flottustu danssýningum í heimi í dag.“
„Þetta er flæði og dansarnir láta allt flakka, ég held hún brjóti niður ákveðnar hugmyndir okkar um líkamann, og hvað hann er ótrúlegt verkefni,“ segir Vigdís. Danshöfundurinn Doris Uhlich segir verkið ekki síst snúast um að vinna gegn fordómum fólks og væntingum um fatlaða líkama. „Við reynum að skapa nýjan skilning og véfengja alla hleypidóma.“ Þetta snúist ekki bara um líkamlega orku heldur að vinna út frá þeim möguleikum sem eru fyrir hendi. „Ég helda að hreyfanleiki snúist ekki bara um líkamann heldur líka tilfinningar og hugsanir, forvitni og hugrekki. Þótt einhver sé bundinn við hjólastól getur viðkomandi verið hreyfanlegur á ýmsa vegu.“
Every Body Electric verður sýnt í Hörpu í júní 2021. Fjallað var um verkið í Með okkar augum.