Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umbrotatímar í Líbanon

27.08.2020 - 09:00
epa08074797 Anti-government protesters wave Lebanese flags and shout slogans during a protest against the reappointment of Saad Hariri to the head of the government, at the entrance to parliament in Beirut, Lebanon, 15 December 2019. The protesters are demanding the process to appoint a new Prime Minister to be speed up after Saad Hariri stepped down on 29 October.  EPA-EFE/NABIL MOUNZER
Mótmælendur í Beirút í gærkvöld. Mynd: EPA-EFE - EPA
Beirút, höfuðborg Líbanon, er þriðja stærsta borgin fyrir botni Miðjarðarhafs á eftir Amman í Jórdaníu og Aleppó í Sýrlandi, og sú fimmtánda stærsta í öllum Arabaheiminum. Hún iðaði af lífi í vikunni, sem og endranær. En andrúmsloftið í borginni er ekki gott, og það kemur loftslagsvánni ekkert við. Undanfarnir dagar hafa verið erfiðir fyrir íbúa Beirút, og Líbanon almennt. Það hafa síðustu vikur, misseri og ár líka verið.

Þessi pistill er úr þætti Heimskviða, frá 21. ágúst.

Kreppa, kórónuveira, og spilling

Í landinu ríkir djúpstæð efnahagskreppa, ríkisstjórnin hefur hrökklast frá völdum, kórónuveirutilfellum fjölgar ört dag frá degi, og fyrir þremur vikum létust tæplega 180 í gríðarstórri sprengingu við hafnarbakkann í Beirút, sex þúsund slösuðust og yfir þrjú hundruð þúsund manns misstu heimili sín. Eða sem nemur eins og einu litlu Íslandi.

Og ef ykkur finnst þetta ekki nægileg verkefni fyrir Líbani að kljást við, þá bárust þær fregnir vestan úr Hollandi í vikunni að búið væri að komast að niðurstöðu í umfangsmestu glæparannsókn landsins. Niðurstöðurnar voru í takt við annað þessi dægrin í þessari París austursins, eins og Beirút er stundum kölluð. Þær vöktu furðu og fleiri spurningar kvikna.

En rót alls þess sem ég hef nefnt hér, efnahagskreppan, sprengingin við höfnina, hröð útbreiðsla kórónuveirunnar og endalok dómsmálsins, er sú sama. Líbönsk stjórnmál.

epa08614907 Solidarity banners are seen on a balcony of heavily damaged houses near the devastated harbor area after the explosion that hit Beirut port, at Gemmayze street Beirut, Lebanon, 20 August 2020. According to Lebanese Health Ministry at least 179 people were killed, and more than 6000 injured 49 missing in the Beirut blast that devastated the port area on 04 August and believed to have been caused by an estimated 2,750 tons of ammonium nitrate stored in a warehouse.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íbúar í Beirút halda sig heima fyrir næstu tvær vikurnar.

Samkomubann næstu tvær vikurnar

Þrátt fyrir heldur óvenjulegar síðustu vikur var líflegt um að litast á götum Beirút í vikunnu. En þannig var það ekki síðastliðinn föstudag. Það er ekki sála á ferli í borginni, enda tók samkomubann gildi í landinu í á föstudaginn. Öllum mörkuðum hefur verið lokað, sem og líkamsræktarstöðum, sundlaugum og öllum stöðum þar sem fólk getur safnast saman. Á kvöldin og á nóttunni gildir algjört útgöngubann. Bannið gildir í tvær vikur, hið minnsta.

Kórónuveirutilfellum hefur nefnilega fjölgað ört í Líbanon síðustu daga. Síðustu daga hefur fjöldi nýgreindra smita margfaldast, á mánudag 456 ný smit og á miðvikudag voru þau yfir 500. Alls hafa yfir tíu þúsund manns greinst með veiruna þar í landi og ef fram heldur sem horfir myndi ástandið stigmagnast, ef ekki væri samkomubann. En það á auðvitað eftir að koma í ljós.

En kórónuveirufaraldurinn fór nokkuð hægt af stað í Líbanon og í júní höfðu aðeins um þúsund manns greinst með veiruna. Hvað veldur? Jú, sex spítalar og að minnsta kosti 20 heilsugæslustöðvar í höfuðborginni Beirút gjöreyðilögðust fyrir rétt um þremur vikum.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

„Engin leið að meta sálrænan skaða“

Um kvöldmatarleytið þann 4. ágúst urðu tvær sprengingar í vöruskemmu við höfnina í Beirút. Um þrjú þúsund tonn af stórhættulegu ammóníak-nítrati höfðu legið árum saman í vörugeymslunni, allt frá því að rússneskir sjómenn skildu það þar eftir árið 2014. Ítrekað höfðu hafnaryfivöld varað við þeirri hættu sem stafaði af því að geyma slíkt magn af ammoníak-nítrati, og komið ábendingum sínum áleiðis til stjórnvalda. Á þær var ekki hlustað.

Ég sló á þráðinn til Ala'a Brujas, arabískukennara og leiðsögumanns sem starfar, eða starfaði, skammt frá höfninni. Ala' er frá Sýrlandi og barðist um tíma í sýrlensku borgarastyrjöldinni, áður en hann flúði til Líbanon ásamt konu sinni og tveimur sonum fyrir 5 árum. Hann hélt á leið heim úr vinnu þennan örlagaríka dag um fjögurleytið. Vinur hans og samstarfsfélagi, Ahmed, tók við af honum.

„Ég gekk heim sömu leið og vanalega, keypti í matinn og var kominn heim um hálfsex,“ segir Ala'a. Þegar hann hafði setið um stund á svölum íbúðar sinnar ásamt syni sínum heyrði hann sprenginguna. „Ég sá stórt sveppský, og síðan þennan appelsínugula blæ sem þú hefur séð í fréttunum,“ segir Ala'a. „Ég var í hernum í Sýrlandi svo ég vissi að það væri stór höggbylgja á leiðinni.“

Ala'a fór beint í símann og hringdi í vinn sinn og vinnufélaga Ahmed. „Guði sé lof sagði ég,“ segir Ala'a þegar Ahmed svaraði. „ En Ahmed svaraði um hæl: Ég missti augað Ala'a, og ég held að ég sé að deyja.“

Blessunarlega komst Ahmed undir læknishendur þar sem gert var að sárum hans, hið sama er ekki hægt að segja um marga aðra. Ala'a segir að fjölskylda hans sé ennþá í áfalli eftir það sem gerðist. Engin leið sé til að meta þann sálræna skaða sem fólk hafi orðið fyrir.

epa07012143 Lebanese Prime Minister Saad Hariri speaks to the press in front of the Special Tribunal for Lebanon after the presentation of closings arguments in the trial of four Hezbollah suspects accused of the 2005 assassination of the Lebanese Prime
Saad Hariri, forsætsiráðherra Líbanons. Mynd: EPA-EFE - ANP POOL
Saad Hariri sagði af sér sem forsætisráðherra undir lok síðasta árs.

Sinnuleysi stjórnvalda

Ala'a segir að fyrstu viðbrögð hans, og margra annarra, við sprengingunni hefðu verið þau að landið væri undir árás. En niðurstaðan er jafnvel ennþá sorglegri, sprengingin er afleiðing sinnuleysis gerspilltra stjórnvalda.

Í nóvember á síðasta ári fjallaði Ólaf Ragnarsdóttir um sívaxandi óánægju almennings í Líbanon með stjórnvöld í landinu. Þá var efnahagurinn bágur, öll þjónusta við almenning slæm og spilling mikil. Forsætisráðherrann Saad Hariri lét af völdum, en ekki tók betra við. Fyrrum ráðherra menntamála, Hassan Diab, tók við keflinu og það kom í hans hlut að mynda nýja ríkisstjórn. Sem sagt, engar kosningar, bara hrókeringar. Síðan Diab tók við hefur staðan síst skánað, og mótmælin haldið áfram.

Vert er að nefna að Hassan Diab naut stuðnings Hezbollah-hreyfingarinnar, flokks sjía múslima sem hefur 10% sæta á líbanska þinginu. Hezbollah-hreyfingin er þó þekktust á Vesturlöndum fyrir annað en hefðbundna flokkapólitík, enda flokkuð sem hryðjuverkasamtök í yfir tuttugu og einu landi, sem og af Arababandalaginu og Evrópusambandinu.

Ítök samtakanna í stjórnmálum landsins eru þyrnir í augum margra fjálslyndra og ekki síst ungra Líbana, sem vilja breytingar. En það erur ekki Hezbollah og ítök þeirra sem standa í vegi fyrir félagslegum umbótum í Líbanon, heldur er það kerfið sjálft. Nánar tiltekið, Taif-samkomulagið svokallaða frá árinu 1989, sem lagði grunninn að því pólítíska kerfi sem stjórnar landinu í dag. Eða ætti maður kannski að segja, trúarlega kerfi, því Taif-samkomulagið kveður á um að forseti landsins skuli vera kristinn, forsætisráðherrann súnnímúslimi og forseti þingsins sjíamúslimi.

Samkomulagið batt vissulega enda á borgarastríðið sem hafði þá varað í ein fimmtán ár, frá 1975 til 1990, en hefur einnig ýtt undir aðskilnað meðal Líbana, milli kristinna mannóníta, og súnníta og síta.Og það er þetta kerfi, sem Líbanir eru orðnir langþreyttir á, segir Ala'a.

„Fólk sé komið með upp í kok,“ segir Ala'a. VegnaTaif-samkomulagsins og þess pólitíska kerfis sem nú sé við lýði, þurfi stjórnmálamenn einfaldlega ekki að axla sömu ábyrgð og annars staðar, segir hann. „Við erum bara tölur á blaði.“

epa08390310 Anti-government protesters attend a protest against the collapsing Lebanese pound currency and the price hikes of goods in front the Lebanese Central Bank in Beirut, Lebanon 28 April 2020. According to media reports, the Lebanese Lira has slumped since October as Lebanon has sunk deeper into a financial crisis that has hiked prices, fueled unrest, and locked depositors out of their US dollar savings.  EPA-EFE/NABIL MOUNZER
Mótmælendur við hús seðlabanka Líbanons í Beirút í fyrrakvöld. Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá mótmælum í Beirút.

Áfram mótmælt

Eftir sprenginguna fjórða ágúst hefur mótmælunum ekki linnt. Þúsundir þustu út á götur Beirút og kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar. Áttunda ágúst komust mótmælendur inn í skrifstofur utanríkisráðuneytisins og til átaka kom milli öryggissveita og mótmælenda, með þeim afleiðingum að sextíu og þrír voru fluttir á spítala. Þrír ráðherrar sögðu af sér í kjölfarið, og þann tíunda ágúst lét forsætisráðherrann Hassan Diab af embætti, sem og öll ríkisstjórnin. Hann mun þó áfram sitja til bráðabrigða, þar til ný ríkisstjórn verður mynduð.

En mótmælendur láta sitt ekki eftir liggja og segjast ætla að halda áfram að berjast gegn spillingu. Uppþotið í kjölfar sprengingarinnar er einmitt ein ástæða þess að kórónuveirusmitum hefur fjölgað jafnt ört í landinu og raun ber vitni, segir Ala'a.

„Eftir sprenginuna sagði fólk, okei mér er sama um kórónuveiruna. Við hefðum getað dáið í sprengingunni. Þetta er hugarfarið hér.“

epa08607845 Lebanese protestors prepare placards for a protest against Lebanese Authorities and Lebanon's political corruption regarding the massive explosion in the Beirut port, next to Place Victor-Hugo in Paris, France, 16 August 2020. According to the Lebanese Health Ministry, at least 179 people were killed, and more than 6,000 injured, with 49 still missing in the Beirut blast that devastated the port area on 04 August and is believed to have been caused by an estimated 2,750 tons of ammonium nitrate stored in a warehouse.  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Líbönskum stjórnvöldum er víða mótmælt. Þessi mynd var tekin í París þann 16. ágúst.

Rafic Hariri og dómsmálið

En þetta er ekki allt. Á þriðjudag í síðustu viku birti dómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna í Haag niðurstöður í máli sem hefur skekið líbanskt samfélag í áraraðir. Árið 2005 var Rafik Hariri, forsætisráðherra Líbanon, myrtur í bílsprengjuárás í Beirút. Yfir tuttugu aðrir létust í árásinni. Réttað var yfir fjórum liðsmönnum Hezbollah-samtakanna, sem voru grunaðir um verknaðinn, en aðeins einn þeirra sakfelldur; Salim nokkur Ayyash. Ala' segir þetta mál farsakennt, enda höfðu líbönsk stjórnvöld eytt nærri einni milljón bandaríkjadollara í rannsóknina. Á endanum séaðeins einn maður gerður ábyrgur.

„Eftir fimmtán ára rannsókn og 300 vitni. Líbanon hefur eytt um einum milljarði bandaríkjadollara í þetta mál,“ segir Ala'a.

epa08610386 (L-R) Judge David Re, Presiding Judge, Judge Janet Nosworthy and Judge Micheline Braidy attend a session of the United Nations-backed Lebanon Tribunal handing down a judgment in the case of four men being tried in absentia for the 2005 bombing that killed former prime minister al-Hariri and 21 other people, in Leidschendam, Netherlands, 18 August 2020.  EPA-EFE/PIROSCHKA VAN DE WOUW / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ANP POOL
Við dómsuppkvaðninguna í Haag í síðustu viku.

Rafik Hariri var súnníti, en Hezbollah eru samtök sjíta og talið er að Hezbollah hafi álitið Hariri ógn við völd þeirra og ítök í landinu. Hasan Nasrallah, leiðtogi samtakanna, hefur alla tíð neitað því að samtökin beri á nokkurn hátt ábyrgð á morðinu á Hariri, og einnig neitað að framselja hina grunuðu. Þeir voru því ekki viðstaddir dómsuppkvaðninguna, og í raun er ekki vitað hvort þeir eru lífs eða liðnir.

Saad Hariri, sem þurfti að segja sig úr embætti forsætisráðherra á síðasta ári, er sonur Rafiks Hariri. Þegar niðurstöðurnar voru birtar sagðist hann hafa vonast eftir öðrum niðurstöðum. Hezbollah þurfi nú að axla ábyrgð og hann muni ekki unna sér hvíldar fyrr en einhver sæti refsingu fyrir morðið á föður hans.

Niðurstöðurnar eru því högg í magann fyrir stuðningsfólk Hariris og fjölskyldur þeirra sem létust í árásinni, því líklega verður enginn dreginn til ábyrgðar. Ja, Ekki nema Saad Hariri komist aftur til valda, og eins og pólitíska landslagið í Líbanon er núna, þá getur jú allt gerst.

epa08614906 A Lebanese flag hangs on a damaged building near the devastated harbor area after the explosion that hit Beirut port, in Beirut, Lebanon, 20 August 2020. According to Lebanese Health Ministry at least 179 people were killed, and more than 6000 injured 49 missing in the Beirut blast that devastated the port area on 04 August and believed to have been caused by an estimated 2,750 tons of ammonium nitrate stored in a warehouse.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Líbanski fáninn hangir utan á íbúðarhúsi í Beirút sem eyðilagðist í sprenginunni.

„Ég vil nýtt upphaf“

Þrátt fyrir erfiða síðustu mánuði, vikur og daga vill Ala'a Burjas ekki yfirgefa landið sem tók honum opnum örmum fyrir fimm árum. Hið sama sama er ekki að segja um marga samferðamenn hans, sem eiga erfitt með að láta enda ná saman.

„Ég á vini sem eru mjög fátækir,“ segir Ala'a. „Þeir unnu fyrir ríkið og fá lítið greitt fyrir það. Eftir vinnu keyra þeir leigubíla eða vinna verkamannavinnu. Þá er fólkið í landinu hrætt og margir vilja fara. Um leið og ég get sæki ég um vegabréfsáritun hjá kanadíska eða ástralska sendiráðinu sagði einn vinur minn.“ 

Annar vinur Ala'a sagðist hafa beðið af sér alla borgarastyrjöldina frá 1975 til 1990 og ekki farið, en nú vilji hann fara. En Ala' ber þá von í brjósti að þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið séu nýir tímar framundan og það sé vor í lofti. Að úr sér gengið pólitískt kerfi verði lagt til hliðar og að Líbanir geti kosið það fólk sem það vill í valdastöður, óháð því hverrar trúar það sé. Nýtt upphaf.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður