Tvíbætti Íslandsmetið og bjartsýnn á Ólympíuleika

Mynd: Mummi Lú / Samsett mynd / Mummi Lú

Tvíbætti Íslandsmetið og bjartsýnn á Ólympíuleika

27.08.2020 - 22:26
Hilmar Örn Jónsson, Íslandsmethafi í sleggjukasti, er mjög bjartsýnn á að komast inn á Ólympíuleikana í Tókíó næsta sumar. Hann tvíbætti eigið Íslandsmet í dag. Vigdís Jónsdóttir bætti líka Íslandsmetið í kvennaflokki í dag og hefur slegið það í fimmgang í sumar.

 

Hilmar Örn tvíbætti eigið met á kastmóti FH í Kaplakrika í dag. Íslandsmetið nú er 77,10 metrar og bætti hann það um einn metra og 28 sentimetra í dag. Kastið er 40 sentimetrum frá mjög ströngu Ólympíulágmarki en er eitt lengsta kast ársins í heiminum.

„Þetta er bara frábært eftir þetta ár, og ég þarf náttúrulega að gera þetta aftur á næsta ári til þess að komast á Ólympíuleikana en það er gaman núna að vera inni á topp 10 í heiminum, segir Hilmar. Ég hugsa að ég sé í 6-8 sæti og þessi árangur væri það alltaf sama hvaða ár er þannig að það er bara mjög skemmtilegt,“ segir Hilmar.

Hvað þarftu til að vera alveg öruggur inn á Ólympíuleika?

„Ég hugsa að ef ég geri þetta aftur á næsta ári þá dugi það. Það opnar ekki aftur á lágmörkin fyrr en í desember en til að vera alveg öruggur inn þarf maður að kasta 77 og hálfan. Það fara 32 inn eftir stigalista og ég verð frekar ofarlega þar ef þetta heldur áfram svona,“ segir Hilmar.

Vigdís hefur verið í fantaformi í sumar og í dag bætti hún Íslandsmetið í fimmta sinn frá í júní. Hún kastaði í dag 63,44 metra og bætti eigið met um 74 sentimetra. Það er aðeins lengra í Ólympíuleikana hjá henni en hún stefnir engu að síður hátt.

„Núna í haust er það bara að styrkja mig ennþá meira og gera mig tilbúna fyrir næsta vor þegar ég fer aftur til Bandaríkjanna. Þá byrja ég náttúrulega að keppa mun fyrr en hér á Íslandi. Fyrir ári ætlaði ég að kasta 64 plús og miðað við stöðuna í dag held ég að ég fari létt með það á næstunni. Þetta er alveg á nippinu að vera ennþá stærra kast,“ segir Vigdís.

 

Tengdar fréttir

Frjálsar

Vigdís og Hilmar bættu bæði Íslandsmet

Frjálsar

Hilmar Örn bætti eigið Íslandsmet

Frjálsar

Mótsmet og öruggir sigrar Hilmars og Vigdísar

Frjálsar

Þriðja Íslandsmet Vigdísar í sumar