Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þrjú íslensk lið í eldlínunni í Evrópu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þrjú íslensk lið í eldlínunni í Evrópu

27.08.2020 - 09:55
Karlalið Breiðabliks, FH og Víkings Reykjavíkur mæta til leiks í Evrópudeildinni í fótbolta í dag. FH-ingar spila hér heima en hin liðin erlendis.

Vegna kórónuveirufaraldursins munu íslensku liðin, líkt og öll önnur lið í forkeppni Evrópudeildarinnar, aðeins leika einn leik í hverju einvígi, í stað tveggja heima og heiman líkt og hefð er fyrir. Því er um að ræða úrslitaleik um sæti í næstu umferð forkeppninnar.

Víkingar ríða á vaðið en þeir unnu sér inn Evrópusæti með því að vinna Mjólkurbikarinn síðasta sumar. Þeir sækja lið Olimpija Ljubljana heim til Slóveníu. Lið Olimpija vann slóvensku deildina árin 2016 og 2018 en hafnaði í öðru sæti deildarinnar í fyrra.

Slóvenska liðið hóf leik á sama stað keppninnar í fyrra og hafði þá betur gegn lettneska liðinu RFS í tveimur leikjum áður en það féll úr keppni fyrir Yeni Malatyaspor frá Tyrklandi í umferðinni þar á eftir.

Víkingar eru að taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn frá árinu 2015. Þá var það einnig slóvensk lið sem stóð í vegi þeirra og féllu þeir úr leik fyrir FC Koper, samanlagt 3-2, eftir tveggja leikja einvígi.

Leikur Víkings og Olimpija hefst klukkan 16:30 ytra.

Strembið verkefni Blika í Þrándheimi

Breiðablik keppir einnig ytra er liðið sækir norska stórveldið Rosenborg heim á Lerkendal-völlinn í Þrándheimi. Rosenborg á glæsta sögu að baki í Evrópukeppnum og var liðið fastagestur í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á tíunda áratug síðustu aldar og framan af fyrsta áratug 21. aldarinnar.

Verr hefur gengið að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar síðustu ár en Rosenborg hefur aftur á móti verið á meðal liða í riðlakeppni Evrópudeildarinnar síðustu þrjú ár.

Breiðablik féll úr leik í fyrstu umferð keppninnar í fyrra þegar liðið þurfti að þola samanlagt 2-1 tap fyrir Vaduz frá Liechtenstein. Blikar mættu Rosenborg síðast árið 2011 í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þeir norsku unnu fyrri leik liðanna í Noregi 5-0 en Breiðablik svaraði fyrir sig með 2-0 sigri á Kópavogsvelli í síðari leiknum.

Leikur Rosenborgar og Breiðabliks hefst klukkan 17:00 í Þrándheimi.

FH fær Slóvaka í heimsókn í Krikann

FH er þá eina liðið sem keppir hérlendis er Dunajská Streda frá Slóvakíu mætir í Kaplakrika. Dunajská Streda hafnaði í þriðja sæti deildarinnar heima fyrir á síðustu leiktíð og hefur liðið hafið keppni í Evrópudeildinni í fyrstu umferðinni síðustu tvö ár.

Fyrra árið slógu þeir slóvakísku Dinamo Tblisi frá Georgíu úr keppni en féllu úr leik í annarri umferð. Sömu sögu er að segja af liðinu í fyrra. Þá vann Dunajská Streda lið Cracovia frá Póllandi í fyrstu umferð áður en það féll úr keppni í annarri umferð.

FH-ingar voru ekki í Evrópukeppni síðasta sumar eftir að hafa tekið þátt í slíkri keppni samfleytt frá árinu 2004. Í tvígang hefur liðið verið einni viðureign frá riðlakeppni Evrópudeildarinnar, árið 2013 þegar FH tapaði gegn Genk frá Belgíu, og árið 2017 þegar það tapaði fyrir Braga frá Portúgal.

Síðast hóf FH keppni á þessu stigi Evrópudeildarinnar sumarið 2018 og vann þá 3-0 samanlagðan sigur á Lahti frá Finnlandi áður en liðið féll úr keppni fyrir Hapoel Haifa frá Ísrael.

Leikur FH og Dunajská Streda hefst klukkan 17:15 í Kaplakrika.

Leikir dagsins

16:30 Olimpja Ljubljana - Víkingur Reykjavík
17:00 Rosenborg - Breiðablik
17:15 FH - Dunajská Streda