Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrír hafa farist í óveðrinu í Louisiana

27.08.2020 - 19:52
Mynd: EPA-EFE / EPA
Þrír hafa farist í fellibylnum Láru í Louisiana í Bandaríkjunum í dag. Mikill viðbúnaður er í þremur ríkjum vegna veðursins og enn er hætta á sjávarflóðum. Nína Rún Bergsdóttir, sem býr í Louisiana, segir mikla hættu á ferðum þegar slíkt óverður skellur á enda eru mjög há tré á þessum slóðum sem geti fallið á hús. Hún býr sig undir rafmagnsleysi næstu daga.

Fellibylurinn fór áður yfir Haítí og Dóminíska lýðveldið. Þar fórust tuttugu og fimm manns. Lára var orðin að fjögurra stiga fellibyl þegar hún kom að landi í Louisiana um miðnætti að staðartíma. Þá var vindhraðinn um sextíu metrar á sekúndu en nú hefur dregið úr styrk hennar. Viðbúnaðurinn hefur verið mikill enda er hætta á allt að sex metra háum sjávarflóðum í Texas og Louisiana og að þau nái jafnvel sextíu kílómetra inn í landið. Nína Rún býr í litlum bæ í norðurhluta Louisiana-ríkis.

Nína Rún er úr Reykjanesbæ og segir að óveðrið í dag minni á rokið þar. „Munurinn er að hér er rosalega mikið af háum trjám  sem geta fallið ofan á hús og það hefur gerst áður að fólk hafi dáið eftir að tré hafi fallið ofan á svefnherbergið þeirra,“ segir hún. Þrír fórust í dag í Louisiana-ríki eftir að tré féllu á hús. 

Hún bendir á að hús þar séu öðruvísi byggð en á Íslandi. „Þannig að það er miklu meiri hætta, þó að það sé svipað rok og við fáum á Íslandi þá er þetta miklu hættulegra hér heldur en heima.“ 

Mynd með færslu
Nína Rún Bergsdóttir býr í norðurhluta Louisiana. Mynd: skjáskot úr Skype - RÚV

Viðbúnaðurinn var mikill og fór Nína Rún ekki varhluta af honum. Sjálf birgði hún sig upp af mat og vatni og segir að margir hafi verið í matvöruverslunum í gær. Undirbúningur í norðurhluta ríkisins, þar sem Nína Rún býr, var þó minni en í suðurhlutanum, þar sem hætta á sjávarflóðum er sem mest. 

Býst við rafmagnsleysi næstu daga

Meira en hálf milljón Bandaríkjamanna hafa þurft að yfirgefa heimili sín af öryggisástæðum. Nína getur verið heima, en þar er rafmagnslaust og verður líklega næstu daga. Staðan er mun verri sunnar í ríkinu. Nína hefur fylgst vel með fréttum og séð mikið af færslum á Facebook þar sem sjá má eyðilegginguna bæði í Louisiana og Texas. „Það voru heilu húsin sem bara gufuðu upp á engum tíma og þetta er hræðilegt.“

Katrina er fólki enn í fersku minni

Fellibylurinn Katrina er fólki enn í fersku minni, nú fimmtán árum síðar. Hátt í tvö þúsund manns fórust þá í borginni New Orleans í Louisiana. Nína Rún hefur farið til New Orleans og segir að enn sé verið að byggja upp eftir hamfarirnar árið 2005. Yfirvöld hafi lýst því yfir að nú, eftir fellibylinn Láru, geti uppbyggingin tekið allt að eitt ár.