Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Stungu milljarða sparnaði í eigin vasa

27.08.2020 - 17:00
Mynd: Riksbanken / Riksbanken
Um 11 milljarðar er upphæðin sem sænsk yfirvöld telja að hafi verið svikin út úr eftirlaunasjóðum á vegum fyrirtækisins Falcon Funds. Þetta er annað stóra sakamálið á skömmum tíma í Svíþjóð, þar sem umsjónarmenn eftirlaunasjóða eru grunaðir um að hafa fé af fólki. Málin þykja sýna hve lítið eftirlit er með því hvernig farið er með eftirlaunasparnað sænsks launafólks.

Margar sparnaðarleiðir

Síðustu 20 ár hefur launafólk í Svíþjóð getað valið í hvaða sjóðum eftirlaunasparnaður þess er ávaxtaður. Hver og einn velur hvort peningarnir eru lagðir í sjóði sem haldið er úti af stéttarfélögum, samtökum atvinnurekenda eða tryggingarfélögum; eða í sjóði á vegum einkaaðila, fjármálafyrirtækja. Sjóðirnir sem úr er að velja, skipta hundruðum og það getur verið flókið að fylgjast með því hvernig peningarnir ávaxtast og hvort allt fari eðlilega fram.

Dæmdir í margra ára fangelsi

Síðustu ár hafa ítrekað komið upp mál þar sem þeir sem áttu að passa upp á og ávaxta eftirlaunasparnað fólks, virðast í staðinn aðallega hafa hugasað um að koma eins miklum peningum og mögulegt væri í eigin vasa.

Forsvarsmenn fyrirtækis sem heitir Falcon Funds, eru þannig grunaðir um að hafa haft jafnvirði margra milljarða íslenskra króna af sparifjáreigendum.

Í síðustu viku hófust á ný réttarhöld yfir forsvarsmönnum fyrirtækisins, en þeir voru í vor dæmdir í margra ára fangelsi í fyrsta hluta sakamálsins. Samkvæmt dómnum þá, sölsuðu þeir undir sig eftirlaunasparnað um 20.000 Svía. Mennirnir fluttu sparnað fólksins úr þeim sjóðum sem það hafði valið, í sjóði sem voru undir stjórn fyrirtækisins, án þess að sparifjáreigendurnir vissu af. Því næst notuðu þeir spariféð til að kaupa „rusl” eins og þeir orðuðu það sjálfir í tölvupóstum. Þeir keyptu sem sagt verðlítil verðbréf á allt of háu verði, af sjálfum sér. Og stungu gróðanum í eigin vasa. Þannig náðu þeir að hafa jafnvirði um þriggja og hálfs milljarðs af sparifjáreigendunum.

Lifðu lúxuslífi

Samkvæmt ákæru í öðrum hluta málsins, sem nú er verið að rétta í, voru peningarnir svo fluttir áfram, frá Svíþjóð til Möltu, og þar haldið áfram með vafasöm viðskipti. Saksóknari segir þau hafi kostað eigendur fjárins um sjö og hálfan milljarð til viðbótar, peninga sem meðal annars fóru í að fjármagna lúxuslíf forsvarsmanna Falcon Funds.

Fleiri mál

En þetta er ekkert einsdæmi. Í febrúar féll dómur í öðru eftirlaunasjóðshneyksli, Allra-málinu. Líkt og eigendur Falcon Funds, lifðu stofnendur Allra lúxuslífi. Aðaleigandinn átti eina þrjá Porche-bíla og bjó í dýrasta einbýlishúsi Svíþjóðar. Kvartanir höfðu þó lengi borist frá fólki vegna ágengrar markaðssetningar, símasölumenn hringdu í fólk og reyndu að fá það til að leggja fé í sjóði Allra. Og það gerðu um 130.000 manns. Árið 2017 var hins vegar lokað fyrir nýjar innlagnir. Fjölmargar kvartanir höfðu þá borist frá þeim sem áttu þar sparifé og því lokuðu yfirvöld sjóðunum, skömmu áður en málið var svo tilkynnt til lögreglu.

Þegar Allra-málið kom fyrir dóm í febrúar á þessu ári, voru forsvarsmenn fyrirtækisins sakaðir um gróf umboðssvik og brot gegn lögum um mútugreiðslur. Saksóknari hélt því fram að Allra hafi keypt verðbréf á óeðlilegu verði, gegnum millilið sem forsvarsmenn fyrirtækisins stýrðu. Viðskiptin voru þannig að milliliðurinn keypti verðbréf fyrir 260 milljónir sænskra króna. Og seldi síðan til Allra, fyrir miklu hærri upphæð, 430 milljónir. Mismunurinn, jafnvirði um tveggja milljarða íslenskra króna, fór beint í vasa þeirra sem áttu Allra, samkvæmt ákæru í málinu. 

Sýknun vekur furðu

Sakborningar héldu því aftur á móti fram að viðskiptin hafi verið eðlileg og raunar hagstæð fyrir sparifjáreigendurna. Saksóknari krafðist sjö ára fangelsis en héraðasdómstóll í Stokkhólmi kvað upp sýknudóm. Ekki hafi verið sýnt fram á að verðið í viðskiptunum hafi verið óeðlilegt. 

Sýknudómurinn kom fréttaskýrendum í Svíþjóð mjög á óvart. Og raunar einnig yfirvöldum. Forstjóri þeirrar stofnunar sem hefur yfirumsjón með sænska eftirlaunakerfinu sagði eftir dóminn að hann efaðist um að það væri yfirhöfuð hægt lengur að ráðleggja fólki að spara með því að leggja fé í verðbréfasjóði. Sparifjáreigendur geti ekki fylgst með hvort vel eða illa sé farið með fé þeirra. Sýknudómnum hefur nú verið áfrýjað.

Reglur um sparnað hertar

Eftir stendur að sænskt launafólk virðist vera í nokkuð veikri stöðu þegar kemur að eftirlaunasparnaði. Sparnaðurinn er lögbundinn. En fólk getur valið milli um 800 slíkra sjóða og oft getur verið erfitt og flókið að fá upplýsingar um hvernig þeir eru reknir eða tryggingar fyrir að ekki sé misfarið með féð. 

Eftir hneykslismálin tvö stendur að sögn til að herða lög um eftirlaunasparnað. Unnið er að lagafrumvarpi þess efnis á sænska þinginu. Valfrelsið verður eftir sem áður til staðar. En það á að verða meira eftirlit með sjóðunum, þannig að þeir sem ætla að bjóða fólki að spara í eftirlaunasjóðum, þurfi í það minnsta að gera einhvers konar samning þess efnis við stjórnvöld.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV