Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stefán í Dimmu stýrir „skólarokki“ í Mývatnssveit

Mynd með færslu
 Mynd: Hulda G. Geirsdóttir - RÚV

Stefán í Dimmu stýrir „skólarokki“ í Mývatnssveit

27.08.2020 - 16:21

Höfundar

Margir muna eftir kvikmyndinni School of Rock þar sem gítarleikinn Dewey Finn dulbýr sig sem forfallakennari í barnaskóla og uppgötvar að nemendurnir í bekknum hans eru hæfileikaríkir tónlistarmenn. Stefán Jakobsson, söngvari rokksveitarinnar Dimmu, þurfti reyndar ekki að dulbúa sig til að verða ráðinn í fullt starf við tónlistarskólann í Skútustaðahreppi. „En myndin hefur borið á góma í nokkrum skilaboðum frá vinum mínum,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Gengið var ráðningu Stefáns á fundi skóla-og félagsmálanefndar Skútustaðahrepps í síðustu viku.  Hann á einnig að sjá um tónlistarkennsluna í grunnskólanum. 

Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að fyrsta mánuðinn verði skoðað hvað henti best og hvar áhugi nemenda liggur. „Nefndin lýsir ánægju sinni með ráðningu Stefáns.“

Stefán tekur fram að hann sé ekki menntaður tónlistarmaður. Hann hafi byrjað í tónlistarnámi en fundist leiðinlegt að læra á blokkflautu. Og byrjað í gítarnámi en ekki fengið að læra þau lög sem hann langaði til að læra. „Ég fór síðan til Garðars Karlssonar sem nálgaðist þetta miklu meira á þeim forsendum að kenna mér tónlist frekar en fræðin í kring, þar sem ég var og það bjargaði miklu fyrir mig.“

Síðar segist hann hafa komist að því að það var gott að blanda þessu saman. „Ég veit hvað virkaði fyrir mig.“  

Söngvarinn viðurkennir að hann sé hálfpartinn að stökkva út í djúpu laugina og það án kúta með því að taka starfið að sér.  Áskorunin sé bæði skrýtin og flókin. „En ég hef verið atvinnumaður í tónlist og veit alls konar. Ég er líka með B.A í þroskaþjálfun og það stendur mér nærri að leiðbeina og ná til barna og unglinga.“

Hann segir myndina School of Rock hafa verið nefnda í nokkrum skilaboðum frá vinum hans en það sé langt síðan að hann sá hana sjálfur. „En mig minnir að hún snúist líka um lífsleikni. Það er ekki markmiðið að einhver verði atvinnumaður í tónlist. Ef það er eitthvað sem ég miðla í gegnum tónlist sem leiðir til þess að viðkomandi verði betri einstaklingur þá er markmiðinu náð. Þá skiptir engu  hvort sá nýtir reynsluna til að vinna plast á betri hátt eða verður besti gítarleikari í heimi.“