Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Smituðum fjölgar á ný í Suður-Kóreu

27.08.2020 - 09:01
epa08621453 Medical workers conduct drive-through tests for COVID-19 at a parking lot of a culture and sports center in Hwasun, South Korea, 24 August 2020.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
Sýni tekin úr vegfarendum í Hwasun í Suður-Kóreu. Mynd: EPA-EFE - YNA
Ríflega 440 greindust með kórónuveirusmit í Suður-Kóreu síðasta sólarhring samkvæmt tölum sem heilbrigðisráðuneyti landsins birti í nótt. Þetta er í fyrsta skipti frá 7. mars sem fjöldi greindra smita í landinu fer yfir 400. 

Þinghúsinu í Seoul var lokað í gær eftir að fréttamaður sem var að fjalla um Lýðræðisflokkinn, stjórnarflokkinn í Suður-Kóreu, greindist með kórónuveirusmit.

Fleiri en 50 manns, þar á meðal 14 háttsettir fulltrúar Lýðræðisflokksins, þurftu í kjölfarið að fara í sóttkví og skimun. Þá segir fréttastofan Yonhap að loka hafi þurft opinberum stofnunum vegna kórónuveirusmita.

 

Búist er við að reglur vegna farsóttarinnar verði hertar á ný í Suður-Kóreu og að fjöldi þeirra sem megi safnast saman í einu fari niður í tíu. Einnig að samkomu- og kaffihúsum kunni að verða lokað.

Í morgun hvatti heilbrigðisráðherra landsins vinnuveitendur til að leyfa starfsmönnum að vinna eins mikið heima og mögulegt væri.