Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Saka lögreglu um að skjóta fatlaðan dreng til bana

27.08.2020 - 17:46
epa08628662 Protesters prepare to attack police during running battles between the local community members and police forces, after it was alleged by the community that an unarmed teenager was shot and killed by the police, in Johannesburg, South Africa, 27 August 2020. Local residents of Eldorado Park community clashe with police forces after attacking the local police station alleging that they killed a 16 year old teenager, after he left his house to find food.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hörð mótmæli blossuðu upp í úthverfi Jóhannesarborgar í Suður-Afríku í dag eftir að lögregla var sökuð um að hafa skotið fatlaðan ungling til bana.

Petunia Julius, systir hins sextán ára gamla Nathaniels Julius, steig fram í sjónvarpsviðtali og lýsti dauða hans í dag. Hún segir Nathaniel hafa verið í hóp með öðrum ungmennum þegar lögregla hafði afskipti af honum í gærkvöld. Nathaniel gat ekki svarað fyrirspurn lögreglu vegna fötlunar sinnar, sem lögreglumennirnir tóku óstinnt upp og gripu til vopna. Drengurinn lést á sjúkrahúsi síðar um kvöldið af völdum skotsárs.

Eftir að viðtalið birtist brutust út mikil mótmæli í hverfinu, sem er í útjaðri Jóhannesarborgar. Kveikt var í dekkjum og ráðist að lögreglumönnum sem freistuðu þess að skakka leikinn. Táragasi og gúmmíkúlum var beitt gegn mótmælendum að sögn ljósmyndara AFP á staðnum.

Talskona lögreglunnar sagði að enn væri aðeins um ásakanir á hendur lögreglu að ræða, en verið væri að rannsaka það innan lögreglunnar hvað leiddi til dauða Nathaniels Julius.