Rólegra á Reykjanesskaga

27.08.2020 - 07:57
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Skjálftavirknin á Reykjanesskaga róaðist eftir því sem leið á gærkvöldið. Í kringum 270 litlir skjálftar hafa þó mælst frá miðnætti, flestir á sama svæði og skjálftarnir í gær. Sá stærsti frá miðnætti mældist um fimmleytið í nótt, 2,9 að stærð.  

Á öðrum tímanum í gær mældist skjálfti upp á 3,7, 2,7 kílómetra austur af Fagradalsfjalli. Á fimmta tímanum mælist svo skjálfti 4,2 að stærð 2,4 kílómetra suðaustur af Keili. Tæpum fimmtán mínútum síðar mældist annar, 3,3 að stærð. Skjálftarnir fundust allir greinilega á höfuðborgarsvæðinu.  

Bjarki Kaldalóns Friis hjá Veðurstofunni segir að rólegt hafi verið í nótt en að áfram megi búast við litlum eftirskjálftum. Hann segir að skjálftarnir séu hluti af skjálftahrinunni sem hefur verið í gangi nánast allt árið á Reykjanesskaga. Virknin hafi færst um 10 kílómetra austur, í átt að höfuðborgarsvæðinu, og því hafi mátt greina þá betur á höfuðborgarsvæðinu en áður. Hann segir að skjálftarnir í gær hafi fundist alla leið á Akranes og Hvolsvöll.  

Aðspurður segir hann að Veðurstofan hafi ekki haft veður af neinum tjónum eða skemmdum vegna skjálftanna. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi