Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meiri íslenska og náttúrufræði - minna val

Grunnskólabörn lesa. Úr umfjöllun Kveiks um læsi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Kennsla í íslensku verður efld í grunnskólum og verulega verður bætt við kennslu í náttúrufræði á unglingastigi, nái tillögur mennta- og menningamálaráðherra um breytingar á aðalnámskrá fram að ganga. Tilefni þessa er slakur árangur íslenskra grunnskólanemenda í PISA-rannsókninni og tilgangurinn er að færa kennsluna nær því sem þekkist í nágrannalöndunum.

Samanborið við nágrannalöndin er Ísland með lægsta hlutfall móðurmálskennslu í 1. - 7. bekk og lægsta hlutfall náttúrufræðikennslu á unglingastigi. 

Verði af þessum breytingum munu nemendur á yngsta stigi grunnskóla, 1. - 4. bekk, fá 80 mínútur meiri íslenskukennslu í viku hverri. Nemendur á miðstigi, 5. - 7. bekk, fá um klukkustund meira af íslenskukennslu á viku. Ekki stendur til að lengja skóladaginn, heldur mun svigrúm skólanna til að ráðstafa kennslutímanum minnka.  Á unglingastigi verður dregið úr vali nemenda um 120 mínútur á viku í því skyni að auka áherslu á náttúrugreinar. 

Núgildandi aðalnámskrá hefur verið í gildi frá 2011 og þessar breytingar falla undir þann hluta hennar sem heitir viðmiðunarstundaskrá. 

Tillögurnar eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda og stefnt er að því að breytingarnar taki gildi frá og með næsta skólaári.