Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hefði verið óábyrgt að skella hurðum á Icelandair

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Síðsumarsþing hefst á Alþingi í dag og stendur yfir í um viku. Til stendur að afgreiða mörg stór mál sem tengjast áhrifum kórónuveirufaraldursins, þar á meðal frumvarp fjármálaráðherra til fjáraukalaga um að veita Icelandair 90% ríkisábyrgð af sextán milljarða lánalínu. Hann segir að það hefði verið óábyrgt ef ríkisstjórnin hefði ekki komið fyrirtækinu til hjálpar.

Alþingi kemur saman fyrir hádegi í dag á svokölluðum þingstubbi, sem hefst á munnlegri skýrslu forsætisráðherra um stöðuna í kórónuveirufaraldrinum og svo mælir fjármálaráðherra fyrir breyttri fjármálastefnu. 

Einnig er á dagskrá þingstubbsins frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til fjáraukalaga um ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair. Í færslu á Facebook segir Bjarni að ef allt fari á besta veg muni félagið ekki þurfa að nýta sér þetta úrræði. Ríkisábyrgðinni sé ætlað að stuðla að því að fullnægjandi árangur geti náðst í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og að tryggja að það hafi burði til að takast á við að áhrif heimsfaraldursins vari um ófyrirséðan tíma. Það sé mikilvægt til þess að innlend ferðaþjónusta og tengigeta Keflavíkurflugvallar geti tekið hratt við sér þegar fólk fer að ferðast aftur í einhverjum mæli, segir Bjarni. Í viðtali við fréttastofu segir hann að það sýni styrk Icelandair að félagið hafi ekki þurft meiri stuðning frá ríkinu. „Það er merkilegt að fyrirtækið skuli ekki hafa þurft á ríkisaðstoð að halda af meiri þunga en raun ber vitni,“ segir Bjarni. „Um alla Evrópu hafa flugfélög - stærri félög í evrópskum flugheimi - hafa þurft að leita á náðir ríkissjóða, bæði með lánveitingar eða að fá hlutafé inngreitt.“ Sú hafi ekki verið raunin með Icelandair. 

Spurður hvort það sé eðlilegt að ríkið komi fyrirtæki á markaði til aðstoðar segir Bjarni að í venjulegu árferði væri það ekki eðlilegt, en vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins sé annað uppi á tengingnum. „Það hefði verið óábyrgt af ríkisstjórninni að skella hurðum þegar að leitað var eftir því að fá stuðning við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins,“ segir Bjarni. Leiðakerfi Icelandairog tengigeta Keflavíkurflugvallar sé mikilvægur hlekkur til þess að skapa grundvöll að kröftugri viðspyrnu fyrir innlenda ferðaþjónustu og efnahagslífið í heild þegar fólk fer að ferðast aftur í einhverjum mæli. 

Breytingar á ýmsum lögum félagsmálaráðherra 

Á síðsumarsþinginu stendur einnig til að afgreiða ýmis frumvörp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Má þar nefna frumvarp ráðherrans þar sem lagt er til að hlutabótaleiðin verði framlengd um tvo mánuði, tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði framlengdar úr þremur mánuðum í sex og launagreiðslur til einstaklinga í sóttkví verði út árið 2021. Þá er á dagskrá frumvarp ráðherrans um svokölluð hlutdeildarlán, sem er ætlað að auðvelda tekjulágu fólki að kaupa fyrsta húsnæði.

Að viku liðinni verður þingi slitið og hefst nýtt þing 1. október.