Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hátt í þrjú þúsund pysjur skráðar í pysjueftirlitinu

Mynd: Gunnar Páll Elvarsson / Gunnar Páll Elvarsson
Alls hafa 2.693 pysjur verið skráðar í pysjueftirlitinu í Vestmannaeyjum og 1.778 vigtaðar síðan sást til fyrstu pysjunnar í Eyjum þann 14. ágúst. Eftirlitið hefur verið starfrækt undanfarin 17 ár en er með breyttu sniði í ár vegna kórónuveirufaraldursins og er eingöngu rafrænt.

Margrét Lilja Magnúsdóttir, safnstjóri hjá Sæheimum, hefur komið að eftirlitinu síðan 2007. „Það hefur hingað til gengið út á það að þeir sem finna pysjur í bænum koma með þær til okkar í vigtun og vængmælingu áður þeim er sleppt á haf út. Núna eru breyttir tímar með samkomutakmörkunum. Við getum ekki tryggt tveggja metra regluna við pysjueftirlitið og til að vernda bæði pysjubjörgunarfólk og starfsmenn, getur pysjueftirlitið ekki farið fram með óbreyttu sniði að þessu sinni,“ segir Margrét í tilkynningu frá Pysjueftirlitinu.

Gunnar Páll Elvarsson, Vestmannaeyingur og fuglaáhugamaður á tólfta ári, fann pysjuna í meðfylgjandi myndskeiði í fyrradag og sleppti henni í gær. Gunnar Páll er búin að finna í kringum tíu pysjur, skrásetja þær og síðan sleppa þeim. Hann hefur mikinn áhuga á að starfa við björgun fugla þegar hann verður fullorðinn.

„Það fara allir núna á lundi.is og skrá hvar maður fann þær og hvað hún er þung. Vanalega fer maður bara á sædýrasafnið og vigtar þær,“ sagði Gunnar Páll í samtali við fréttastofu. „Ef hún er of létt, þá þarf kannski að vera með henni í nokkra daga og gefa henni mat til að hún þyngist.“

Heldurðu að þú finnir fleiri en í fyrra?

„Ef það heldur áfram svona þá, já, [...] ég er held ég bara rétt að byrja,“ segir Gunnar Páll. Hann segir þó ekki alltaf auðvelt að finna pysjurnar.

„Stundum þegar það er mikil traffík í bænum getur verið svolítið erfitt að finna þær.“

Margrét segir að áfram verði tekið á móti pysjum sem þurfa sérstaka aðhlynningu í afgreiðslu Sea Life Trust að Ægisgötu 2. „Þar erum við að tala um litlar og dúnaðar pysjur, olíublautar, slasaðar og aðrar sem þurfa sérstaka umönnun. Vonandi gengur þetta vel og sem flestir taki þátt. Þannig getum við fengið þær upplýsingar sem skipta mestu máli og pysjueftirlitið haldið áfram óslitið.“

Vel gekk að koma ungum á legg þrátt fyrir fækkun

Verulega dró úr lundavarpi í Vestmannaeyjum og á Breiðafirði í sumar, þar sem um 60% íslenska lundastofnsins verpir.

Greint var frá því fyrr í sumar að ábúð hafi verið í 57% lundaholanna í Vestmannaeyjum miðað við 78% árið á undan.

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, sagði við fréttastofu þá að þrátt fyrir fækkunina hafi gengið vel að koma ungum á legg þetta árið. Líklega megi rekja það til þess að meira hafi verið um fæði fyrir fuglinn en undanfarin ár.