Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Góð veiði í nýjum farveg Hítarár

27.08.2020 - 09:37
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Leigutaki í Hítará segir að nýr farvegur sem myndaðist eftir að stór skriða féll í Hítardal sé bylting frá fyrri farvegi. Góð veiði hefur verið í ánni í sumar og meirihluti þess næsta þegar bókaður.

Orri Dór Guðnason er leigutaki í Hítará.

„Við erum komnir yfir 400 laxa, og það er býsna gott. Ég geri ráð fyrir að við förum yfir 500 laxa, það er mikið af fisk í ánni. Það eru allir staðir kjaftfullir af fiski,“ segir hann.

Höfðu áhyggjur af heimtum eftir skriðu

Gríðarstór aurskriða féll í Hítardal 2018. Skriðan er ein sú stærsta sem hefur fallið á Íslandi frá landnámi. Hún stíflaði Hítará sem fann sér nýjan farveg fram hjá skriðunni og sameinaðist þar hliðaránni Tálma. Áhyggjur voru uppi um að heimtur úr ánni yrðu verri en áður, þar sem hrygningarsvæði urðu undir skriðunni.

Orri segir ekkert benda til þess að áin sé verri nú en fyrir skriðu, þvert á móti.

„Eftir að skriðan fellur þá heldur áin mikið betur vatni og er búin að vera að sanna sig í allt sumar. Í raun og veru er þetta gjörbylting frá þeirri á sem rann fyrir. Veiðimönnum ver saman um það að sú nýja er mun skemmtilegra laxveiðiá en sú sem áður rann,“ segir Orri.

Skurður í gegnum skriðu fær 60 milljónir frá fiskræktarsjóði

Þegar hefur tillaga að deiliskipulagi verið auglýst sem gerir ráð fyrir endurheimt fyrri farvegs Hítarár. Samkvæmt tillögunni kallar endurheimt á að grafinn verði 1,8 kílómetra langur skurður í gegnum tíu til þrjátíu metra þykka skriðuna. Í fyrra mat Skipulagsstofnun framkvæmdina ekki háða umhverfismati.

Þá hefur Fiskræktarsjóður þegar úthlutað 60 milljónum til verksins. Það er töluvert hærri fjárhæð en árlegar heildarúthlutanir sjóðsins síðustu ár. Heildarúthlutanir síðustu þriggja ára eru um og yfir 30 milljónir á ári og allra stærstu styrkirnir 14 milljónir. Aðrir styrkir á þessu ári eru allir um eða undir tveimur milljónum.