Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gætu lent í erfiðleikum þegar vextir hækka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Miklu fleiri taka óverðtryggð lán nú en áður. Búast má við að afborganir þeirra muni hækka talsvert þegar hagkerfið tekur við sér. Þetta er mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem segir að bankar og lánastofnanir beri ábyrgð á að upplýsa lántakendur um hugsanlega hækkun. 

Gríðarlegur vöxtur hefur verið í nýjum útlánum bankanna undanfarna mánuði. Meirihluti þeirra eru óverðtryggð lán og í júlí tóku Íslendingar óverðtryggð lán fyrir meira en 45 milljarða en verðtryggð lán fyrir rúma þrjá milljarða.

Karlotta Halldórsdóttir hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir að vinsældir óverðtryggðra lána megi rekja til mikilla vaxtalækkana að undanförnu sem hefur leitt til lægri greiðslubyrði. Sumir séu að endurfjármagna verðtryggð lán með óverðtryggðum. Þá eru stýrivextir í sögulegu lágmarki.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við erum að sjá vexti svona lága eins og þeir eru í dag. Þeir hafa aldrei farið svona langt, þeir eru 1% núna. Þannig að það er viðbúið að þeir muni hækka eitthvað.“

Er ástæða til að hafa áhyggjur af því að fólk muni þá ekki ráða við afborganir? „Já, ég myndi telja að það væri ástæða til þess. Úr því að við erum að sjá svona mikla aukningu fólks fara í óverðtryggð lán, þá gæti komið upp sú staða að fólk lendi í greiðsluerfiðleikum ef það er búið að hámarka greiðslugetu sína miðað við núverandi vexti.“

Karlotta segir að vissulega beri fólk sjálft ábyrgð á að velja lán við hæfi. „En það hvílir náttúrulega mikil ábyrgð á lánastofnunum að upplýsa lántakendur. Og ég er ekkert endilega viss um að lánastofnendur séu að upplýsa um þetta.“