Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimmfalt fleiri í farsóttarhúsum en í fyrri bylgju

27.08.2020 - 08:39
Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Fimmfalt fleiri hafa dvalið í farsóttarhúsunum í Reykjavík og á Akureyri í yfirstandandi bylgju kórónuveirufaraldursins en í þeirri fyrri. Alls hafa um 276 dvalið í farsóttarhúsunum síðan síðari bylgjan tók sig upp en í vor dvöldust þar aðeins 50 manns. Morgunblaðið greindi frá fjölguninni í morgun og Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsanna, sagði í samtali við fréttastofu nú í morgun að hún skýrðist aðallega af fjölgun hælisleitenda.

Enginn hælisleitandi greinst á landamærum eða í seinni skimun

Í farsóttarhúsin koma erlendir ferðamenn sem greinast jákvæðir á landamærunum auk Íslendinga sem ekki geti dvalið heima hjá sér í sóttkví eða einangrun. Gylfi sagði í samtali við fréttastofu í morgun að 20 Íslendingar hefðu dvalið þar í seinni bylgjunni. Stærstur hluti þeirra sem dveldu í farsóttarhúsunum væru hins vegar hælisleitendur sem dveldu þar í sóttkví í 4-5 daga eftir að hafa verið skimaðir á landamærum. Hann sagði að enginn hælisleitandi hefði greinst smitaður hérlendis, hvorki á landamærum né í seinni skimun. 

Sjálfboðaliðum hefur fækkað mikið

Morgunblaðið hefur eftir Gylfa að starfsmenn Rauða krossins skipti með sér vöktum í farsóttarhúsum og sjálfboðaliðar hjálpi til. Sjálfboðaliðum hafi fækkað úr 40 í fjóra frá því í vor. „Sjálfboðaliðum hefur því fækkað tífalt á sama tíma og fjöldi gesta fimmfaldaðist.“

Fréttastofa leitaði skýringa á þessu við Gylfa í morgun. Hann sagðist halda að fækkun sjálfboðaliða mætti aðallega rekja til þess að atvinnulífið væri komið á betra skrið en í vor og því væri erfiðara að fá sjálfboðaliða. Svo hefði fólk hugsanlega verið tilbúið að leggja meira á sig í vor til að vinna bug á faraldrinum en nú.

Gylfi segir að ekki komi til greina að vísa gestum frá, en þó finnist honum ólíklegt að fjölga þurfi starfsfólki. Morgunblaðið hefur eftir honum að hlutverk starfsfólks sé ekki aðeins að hlúa að líkamlegri heilsu fólks, í samstarfi við COVID-göngudeild Landspítalans, heldur einnig andlegri, enda séu dæmi um að fólk dvelji í sex vikur í einangrun í farsóttarhúsum. Hvorki starfsmenn né sjálfboðaliðar hafi smitast af kórónuveirunni. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV