Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki verið rætt að fresta samræmdum prófum

27.08.2020 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, segir ekki hafa verið til umræðu að fresta samræmdum prófum í Álftamýrar- og Hvassaleitisskóla. Nemendur í 7. bekk skólanna taka samræmd próf í íslensku og stærðfræði 24. og 25. september en enn er ekki búið að setja skólana.

Skólinn verður ekki settur fyrr en 3. september í Hvassaleitisskóla og 7. september í Álftamýrarskóla. Skólasetningu var frestað eftir að allir kennarar skólans voru sendir í sóttkví í síðustu viku eftir að hafa verið í návist við COVID-smitaðan starfsmann.

Bylgja Björnsdóttir, formaður foreldrafélags sameinaðs Álftamýrar- og Hvassaleitisskóla áður en þeim var skipt aftur upp í vor, hefur fundið fyrir áhyggjum foreldra sem eru með börn í 7. bekk varðandi undirbúning fyrir prófin.

Ekki ætlast til að foreldrar undirbúi nemendur

Sverrir segir í samtali við fréttastofu að ekki sé ætlast til að foreldrar undirbúi nemendur heima fyrir prófin.

„Við höfum verið að leggja áherslu á að það að þetta eru könnunarpróf. Samræmdu prófin á Íslandi eru einstök í heiminum því þau eru eitt tæki af mörgum sem skólinn og skólasamfélagði notar til að meta stöðu nemenda til að veita þeim betri kennslu. Þetta er ekki eins og í mörgum löndum þar sem samræmd próf eru notuð til að ákveða í hvaða skóla nemendur komast eða þar sem þetta hefur miklar afleiðingar,“ segir Sverrir.

Tæki fyrir skóla og sveitarfélög

Hann segir það stinga þegar hann heyri af foreldrum sem sendi börn á dýr kvöldnámskeið eða séu með miklar æfingar heima fyrir próf. Ekki þurfi að setja sig í stellingar þó það komi að samræmdu prófi. Nemendur falli ekki í könnunarprófinu heldur sé það tæki til að sjá innan skóla og sveitarfélaga hvernig gera megi betur.

„Núna síðustu daga höfum við verið að undirbúa okkur með fyrirlögn prófanna og verið að skoða vandlega með ráðuneytinu og aðilum skólasamfélagsins hvernig við getum staðið sem best að þessari framkvæmd,“ segir Sverrir. Hann segir skólayfirvöld mjög reiðubúin að sýna ákveðinn sveigjanleika komi til enn frekari skerðinga á skólastarfinu.