Dregur úr styrk Láru en áfram búist við hamförum

27.08.2020 - 13:08
Mynd: EPA / EPA
Nokkuð hefur dregið úr styrk fellibylsins Láru eftir að miðja hans fór inn yfir land í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum í morgun. Þó er enn óttast að eyðileggingin verði mikil í Louisiana og Texas.

Lára var fjórða stigs fellibylur þegar hann kom að landi í Louisiana, en heldur hefur dregið úr vindhraðanum á leiðinni inn yfir land. Nú um hádegisbil var styrkurinn því sem nemur annars stigs fellibyls. Engu að síður er búist við miklu tjóni, ekki síst vegna sjávarflóða.

Búist er við að hann dragi með sér mikinn sjó inn yfir land, sem kunni að berast allt að 65 kílómetra inn í Louisiana þar sem lítil sé fyrirstaða. John Bel Edwards, ríkisstjóri í Louisiana, varaði við þessu í gær.

Mynd: Skjáskot / Skjáskot

Edwards sagði að íbúar kynnu að heyra tölur í þessu sambandi sem hefðu ekki heyrst síðan fellibylurinn Audrey fór þarna um árið 1957 og jafnvel að útilokað yrði að standast þær hamfarir. Fólk yrði því að komast í öruggt skjól áður en óveðrið skylli á af fullum þunga. Um 580 þúsund manns var gert að yfirgefa heimili sín, en ekki fóru allir eftir því.

Yfir 290 þúsund heimili og fyrirtæki eru án rafmagns í Louisiana og Texas. Nærri stöðugar eldingar voru eina ljósið sem fjölmargir sáu þegar verst lét í nótt.

Fellibylurinn Lára fór áður yfir Haítí og  Dóminíkanska lýðveldið og olli þar miklum flóðum. Að minnsta kosti 25 fórust þar í óveðrinu.

Meiri styrkur en fylgdi Katrínu árið 2005

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki líklegt að Lára styrkist á ný fyrst bylurinn er kominn yfir land. Enn er þó varað við sjávarflóðum vegna sjós sem Lára dró með sér inn í land, og meðal annars varað við flóðum í Arkansas sem er fylki norðan við Louisiana.

Elín Björk bendir á að nokkuð sé óvenjulegt við Láru.

„Fellibylurinn gengur á land sem fjórða styrks fellibylur og meðalvindhraði var upp undir sextíu metra á sekúndu. Þetta er svona alveg í hærri kantinum á þessum fjórða styrks kvarða og það er til dæmis meira en fellibylurinn Katrína var þegar hún gekk á land árið 2005 og olli gríðarlegu tjóni. Svo er þetta líka mjög snemmt á þessu fellibyljatímabili að fá svona öfluga storma, svo Lára hefur verð óvenjuleg,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi