Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brexit í afturábakgír

27.08.2020 - 09:53
Bretaland · Brexit · Erlent · ESB · Spegillinn
Mynd: EPA / EPA
Þrátt fyrir orð Boris Johnsons forsætisráðherra Breta í júní um að hespa nú af Brexit-samningunum við Evrópusambandið telur Michel Barnier aðalsamningamaður ESB að í síðustu samningatörn hafi heldur miðað aftur á bak en áfram. Fyrir mánuði taldi Barnier samninga ólíklega og eins nú. Það hefur ekkert heyrst nýlega hvernig staðan horfi við forsætisráðherra Breta né öðrum ráðherrum.

Aðalsamningamaður ESB verulega áhyggjufullur

Enn einni samningalotunni er lokið milli samninganefnda Breta og Evrópusambandsins um viðskiptasamninga eftir Brexit. Í þetta skiptið hittust nefndirnar í Brussel. Michel Barnier formaður samninganefndar ESB er orðinn verulega áhyggjufullur.

Tíminn til samningaviðræðna er orðinn afar naumur, sagði Barnier á móðurmáli sínu, frönsku og það var þungt yfir honum. Of oft þessa vikuna, sagði Barnier og skipti yfir í ensku, þá var tilfinningin sú að okkur miðaði heldur aftur á bak en áfram.

Samingstextinn þarf helst að vera tilbúinn í október

Barnier útlistaði hvernig þetta þyrfti að ganga fyrir sig – endanlegi lagatextinn helst að vera tilbúinn í október svo lögfræðingum gæfist tækifæri að lúslesa textann. Svo þyrfti að þýða hann á mál aðildarlandanna 27 áður en samningurinn tæki svo gildi 1. janúar næstkomandi.

ESB telur litlar horfur á samning

Í ljósi skamms tíma, sagði Barnier, þá stendur enn það sem ég sagði í London í júlí: að svo komnu máli þá er samningur milli ESB og Bretlands ólíklegur. – Samkvæmt Barnier strandar enn sem fyrr á því sama, að Bretar samþykki reglur og staðla, sem tryggja jafna aðstöðu ESB og Breta og svo sanngjarna fiskveiðistefnu.

Vonbrigði Barniers eftir fyrirheit Johnsons

Barnier leyndi ekki vonbrigðum sínum, sem hann sagði að stöfuðu ekki síst af fyrirheitum sem Boris Johnson forsætisráðherra Breta gaf í júní um að herða nú viðræðurnar. Eftir að hafa rætt við æðstu framámenn Evrópusambandsins, sagðist Johnson ekki sjá því neitt til fyrirstöðu að í júlí yrði verulega gefið í.

Johnson fylgir ekki eftir orðum um að kýla á samning

Já, kominn tími til að setja tígrisdýr í tankinn, sagði forsætisráðherra, vísaði þar í gamla bensínauglýsingu um öflugt eldsneyti. Forsætisráðherra vildi sannarlega ekki sjá viðræðurnar dragast fram á haustið, eins og menn í Brussel vildu kannski helst. Nei, enginn tilgangur í því, kýlum á þetta, sagði Johnson.

Hressileg orð eru upplífgandi í pólitíkinni ef þeim fylgir skýr stefna. Margir stjórnarþingmenn eru hins vegar orðnir áhyggjufullir yfir að frá forsætisráðherra komi hressileg orð en án skýrrar stefnu.

Í upphafi Brexit-tímans virtist allt svo einfalt

Þetta var annars allt svo einfalt í upphafi Brexit tímans.

Brexit þýðir Brexit, sagði Theresa May þegar hún bauð sig fram sem leiðtogi Íhaldsflokksins eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2016. Þó hún margendurtæki þessi orð sem forsætisráðherra skýrði það ekki Brexit í raun. Á sínum þremur árum í embætti hélt hún í þessa skilgreiningu, þegar hún talaði við harðlínu Brexit-sinna í eiginn flokki, um leið og hún reyndi að leggja út af þeim þannig að Bretar héldu í ýmsa kosti ESB-aðildar þegar hún ræddi við þá sem töldu að Brexit myndi skaða Bretland.

Á endanum gekk þetta ekki upp, hún komst hvorki lönd né strönd í þessari viðleitni sinni að bera kápuna á báðum öxlum og tími Boris Johnson rann upp. Án þess þó að stefnan hafi skýrst til muna.

Ergelsi Breta en engar skýrar yfirlýsingar

Jafnvel Brexit-sinnar eins og forsætisráðherra töluðu í upphafi um áframhaldandi náið samband en á forsendum Breta. Núna heyrast kvartanir, hafðar eftir aðalsamningamanni Breta að ESB sé svo ósveigjanlegt. Til dæmis þetta að setja á oddinn að leysa erfiðu efnin fyrst, sem var þó það sem samningsaðilar ákváðu í sameiningu í upphafi viðræðnanna.

Brexit í anda Shakespeares er ógott haldreipi

Frá sjónarhóli ESB og hinna landanna 27 hefur afstaða Breta frá upphafi verið að Bretar vilja halda kostum ESB-aðildar, eins til dæmis kostum  tollabandalags og óhindraðra viðskipta, en án kvaðanna, sem fylgja aðild. Það er ,,haltu mér slepptu mér stefnan,“ að vera og vera ekki með. Skáldskapur Shakespeares hljómar vel á leiksviði í orðum Hamlets, ,,að vera eða vera ekki“ en þau eru betri skáldskapur en haldreipi á pólitíska sviðinu.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir