Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Auðlindir jarðar þetta árið fullnýttar

Mynd: Porapak Apichodilok / Porapak Apichodilok
Þolmarkardagur jarðar er liðinn. Það sem eftir lifir árs munum við nýta auðlindir jarðar á kostnað komandi kynslóða. Hafdís Hanna Ægisdóttir fjallaði um daginn í Samfélaginu á Rás 1 og nauðsyn þess að við minnkun vistspor jarðarbúa og lærdóminn af kórónaveiru faraldrinum.

 

Síðastliðinn laugardag, 22 ágúst höfðum við jarðarbúar þá þegar fullnýtt það sem nýta má af auðlindum jarðarinnar þetta árið. Þær auðlindir sem við nýtum það sem eftir lifir árs eru teknar að láni hjá komandi kynslóðum. Ef við setjum þetta í samhengi við heimilisbókhald, þá má segja að við höfum lifað um efni fram, bankareikningurinn sé nú tómur og að við höfum slegið lán með veði í lífsafkomu afkomenda okkar. Vaxtakjörin eru ekki alveg ljós en ætli það megi ekki slá því föstu að lánakjörin séu mjög óhagsstæð.

En hvernig er þessi dagur – sem hefur verið kallaður þolmarkadagur jarðar fengin. Það eru alþjóðleg samtök sem kallast Global Footprint Network sem reikna út hversu marga daga ár hvert auðlindir jarðar geta staðið undir neyslu og nýtingu mannkyns án þess að gengið sé á höfuðstólinn. Það er gert með því að áætla neyslu okkar og reikna út hverjar náttúruauðlindir jarðar eru og hve mikið hefur verið nýtt af þeim þetta tiltekna ár. 

Með í reikninginn er tekin nýting okkar á landi og sjó; fiskveiðar, skógarnytjar, beitiland, ræktarland og byggingarland auk útblásturs gróðurhúsalofttegunda svo eitthvað sé nefnt.

Gögn samtakana Global Footprint Network sýna fram á mikla breytingu frá 1970 til dagsins í dag. Um 1970 vorum við nálægt því að koma út á núlli enda var þolmarkadagurinn í lok desember það ár. Í fyrra – árið 2019 eyddum við vel um efni fram og vorum farin að taka lán frá og með 29. júlí. 

Það var því áhugavert að sjá hvar þolmarkadagurinn myndi lenda í ár – á ári kórónuveirunnar. Jú, á heimsvísu færðist dagurinn aftur um rúmar 3 vikur eða til 22. ágúst. Miðað við árið í ár þá nýttum við 60% meira af auðlindum jarðar en hún hefur getu til að endurnýja ár hvert. Við þyrftum í raun 1,6 jarðir til að standa undir neyslunni.   

Lönd heimsins standa sig þó misvel – eða misilla – þegar kemur að neyslu og nýtingu á náttúruauðlindum jarðar. Quatar var búið að tæma bankareikninginn 11. febrúar og þá þegar kominn í skuld við móður náttúru á meðan Indónesía og Ekvador tæmdu sinn auðlindabankareikning um miðjan desember.

Á tímum útgöngubanns, minni neyslu og ferðalaga er kannski ekki að undra að þolmarkadagurinn hafi færst aftur um rúmar 3 vikur en það samsvarar rúmlega 9% minna álagi á auðlindar jarðarinnar miðað við árið í fyrra. Stærsta breytingin var 14,5% minna kolefnisfótspor jarðarbúa og rúmlega 8% minna skógarhögg. 

Þrátt fyrir að við höfum farið betur með gjafir jarðar í ár miðað við síðustu ár vildi ég óska þess að ástæðan væri ekki bandsett veiran sem hefur svo sannarlega haft áhrif á líf okkar allra.

Já, eins og það væri gott að okkur takist að minnka vistspor okkar á jörðina þá væri óskandi að ástæðan fyrir því að þolmarkadagurinn hafi færst aftur um rúmar þrjár vikur í ár væri ekki vegna heimsfaraldurs heldur vegna þess að við sem mannkyn hefðum tekið höndum saman, sýnt ábyrgð og fetað okkur í átt að sjálfbærari lífstíl í sátt við náttúruna og í sátt við hvert annað.

En kórónuveirufaraldurinn hefur líka fengið mig til að hugsa um hvað við erum í raun sveigjanleg og fljót að læra. Og hve samtakamátturinn getur verið mikill þegar á reynir. Mismunandi viðbrögð þjóðarleiðtoga heimsins hafa einnig sýnt svo ekki verður um villst að langfarsælast er að hlusta á sóttvarnaryfirvöld og vísindamenn og skipuleggja viðbrögð við farsóttinni í samráði við þá. Það hefur einnig sýnt sig að þær þjóðir sem hafa þjóðarleiðtoga sem eru uppteknari að sjálfum sér en hagsmunum heildarinnar hefur ekki farnast vel. 

Lærdómurinn af þessu krefjandi ári getur ekki bara hjálpað okkur að sigrast á veirunni – heldur einnig kennt okkur hvernig við getum tekist á við enn stærra og langvinnara verkefni – loftslagsvánna.

Ég hef líka hugsað um í hvers konar heimi við ölum börnin okkar og barnabörn uppí. Stundum þyrmir yfir mig þegar ég heyri hverja fréttina af fætur annarri um fellibylji, hitabylgjur og hraðari bráðnum jökla. En ég er bjartsýnismanneskja að upplagi og gleðst því þeim mun meira af jákvæðum fréttum af lausnum – bæði náttúrulegum lausnum og tæknilausnum sem og af leiðtogum og hversdagshetjum sem alls staðar í heiminum eru að gera magnaða hluti. Við megum jú aldrei missa móðinn.

Á vefsíðu þolmarkadagsins (overshootday.org) er til að mynda ekki aðeins talað um niðurstöður reikninganna og ekki aðeins sýndar sláandi niðurstöður um ofnýtingu og ofneyslu okkar. Þar eru einnig hugmyndir um hvað við getum gert til að færa þolmarkadaginn enn aftar – og ekki vegna farsóttar heldur vegna þess að við viljum og getum lifað lífi þar sem við höfum sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Hugmyndirnar eru settar fram undir myllumerkinu #MoveTheDate eða færum daginn.

Og hugmyndirnar eru ýmiskonar og snerta til að mynda matvæli, þéttbýli, orku og það hvernig við við umgöngumst náttúruna. Mig langar til að taka stutt dæmi um hvert þessara atriða.

Byrjum á orkunotkuninni. Orkan sem við notum skiptir gríðarlegu máli. Með því að minnka kolefnisfótspor okkar um 50% myndum við færa þolmarkadag jarðar aftur um 93 daga eða meira en 3 mánuði. Það er því til mikils að vinna. Þetta sný að því hvernig orkugjafa við notum, rafmagnsframleiðsluna, tæknilausnir fyrir byggingar og þær orkulausnir sem notaðar eru í iðnaði. 

Skipulag þéttbýlis skiptir einnig miklu máli enda er áætlað að árið 2050 muni allt að 80% mannkyns búa í borgum. Þurfum við að fara allar okkar ferða keyrandi í einkabílnum eða er þéttbýli skipulagt þannig að auðvelt er að taka almenningssamgöngur, ganga og hjóla?

Framleiðsla, dreifing og neysla matvæla er einnig mjög mikilvæg. Ef okkur tekst að skipta út helmingi af því kjöti sem við neytum yfir í plöntufæði myndum við færa þolmarkadaginn aftur um 17 daga. Með því að minnka matarsóun um helming á heimsvísu myndum við græða 13 daga í viðbót. Í þessu samhengi má nefna að í Bandaríkjunum er áætlað að um 40% allra matvæla fari til spillis en það jafngildir öllu vistspori Svíþjóðar og Kolumbíu samanlagt. 

Að lokum er það náttúran okkar – vistkerfin. Með því að vernda og/eða nýta heilbrigð vistkerfi á sjálfbæran hátt og endurheimta röskuð vistkerfi – getum við unnið kraftaverk. Það er nefnilega ágætt að minna sig reglulega á mikilvægi  vistkerfa jarðarinnar og þá þjónustu sem þau veita okkur.  Vistkerfi í góðu ástandi veita okkur þjónustu sem við tökum því miður alltof oft sem sjálfsögðum hlut. Þessi svokallaða vistkerfaþjónusta er til dæmis fæðan sem við neytum, hreint loft, vatn, eldsneyti og efniviður í hús og lyf. Gleymum því ekki að þjónusta heilbrigðra vistkerfa er hvorki sjálfsögð né ókeypis. Það er því mikilvægt að hlúa vel að náttúrunni; vernda hana og endurheimta.

Ögurstund er runnin upp góðir hlustendur.

Ætlum við að nýta okkur þann lærdóm sem við höfum nú þegar fengið vegna kórónuveirufarsóttarinnar til að búa til heim þar sem lifum í sátt og samlyndi við gjafir jarðar? Ætlum við að takast á við afleiðingar veirunnar með grænum lausnum eða munum við strax fara í gamla farið? Það er okkar að velja og nú reynir á okkur og leiðtoga heimsins.

 

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður