Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Afkoma borgarinnar lakari en gert var ráð fyrir

27.08.2020 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Afkoma Reyjavíkurborgar fyrstu sex mánuði ársins var talsvert lakari en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Tekjur drógust saman og útgjöld jukust og er niðurstaðan sögð skýrast einkum af lægri skatttekjum og minni tekjum af sölu byggingaréttar sem megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Minnihlutinn í borgarstjórn hafnar þessum skýringum.

Rekstrarniðurstaða svokallaðs A-hluta , en til hans telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, var neikvæð um 3,1 milljarð. Þegar litið er til samstæðunnar allrar, bæði A- og B-hluta sem eru fyrirtæki sem eru að hálfu eða meirihluta í eigu borgarinnar og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, er niðurstaðan sú að rekstrarniðurstaðan er neikvæð um rúmlega 4,5 milljarða króna.

Í tilkynningu á vef borgarinnar segir að lakari niðurstöðu samstæðunnar megi helst rekja til áhrifa lækkaðs álverðs og gjaldfærslu gengismunar vegna veikingar krónunnar frá áramótum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. 

Minnihlutinn gagnrýnir rekstrarniðurstöðuna

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, segir í tilkynningu að ekki sé hægt að skrifa öll fjárhagsvandræði borgarinnar á heimsfaraldurinn. Hann bendir á að ríkið hafi nýtt uppsveiflu síðustu ára til að greiða niður skuldir, en á sama tíma hafi borgin aukið skuldir sínar um meira en millarð á mánuði öll síðustu ár. Eyþór bendir einnig á versnandi stöðu dótturfyrirtækja borgarinnar. Þannig hafi afkoma OR versnað um 127% milli ára. Afkoma SORPU versni um 90% frá áætlun og rekstarniðursaða Félagsbústaða hf. versni um 98% frá áætlun.

Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að í lok júní hafi heildareignir samstæðunnar numið 724.530 milljónum króna og heildarskuldir ásamt skuldbindingum hafi verið 378.064 milljónir króna. Eigið fé var 346.466 milljónir króna. Þar af var hlutdeild meðeigenda 18.859 milljónir króna.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 47,8% en var 49,9% um síðustu áramót, segir á vef borgarinnar.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir