Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Æðrulaus gagnvart smiti mánaðar gamals drengs

27.08.2020 - 19:32
Innlent · COVID-19 · Einangrun · Smit
Mynd: Freyr Arnarson / Freyr Arnarson
Mánaðargamall drengur greindist með kórónuveiruna í gær. Foreldrar hans, sem einnig eru smitaðir, óttast um langveika dóttur þeirra sem er í áhættuhópi og með þeim í einangrun. Litli drengurinn er yngsta barnið sem greinst hefur með veiruna hér á landi, enn sem komið er.

Yngsta barnið sem greinist með COVID-19

Arnaldur Smári Árnason fæddist 30. júlí, fyrir 28 dögum. Hann var meðal þerra fáu Íslendinga sem greindust jákvæð af Covid-19 í gær. Guðrún Ósk Maríasdóttir, móðir hans, greindist á þriðjudag en pabbi Arnaldar Smára, Árni Björn Kristjánsson, hafði þá verið í einangrun.

„Okkur grunaði að hann væri kominn með þetta af því að hann byrjaði að hósta aðeins og var svona frekar óvær, aðeins að hnerra. Hann hefur það þokkalegt en við finnum það alveg að hann er alveg veikur. Þó svo að við höfum heyrt að þetta hafi ekki eins mikil áhrif á börn þá er þetta samt mjög óþægileg tilfinning,“ segir Árni Björn.

Búa sig undir að langveik dóttir þeirra smitist

Með fjölskyldunni í einangrun er Halldóra María, sjö ára gömul dóttir Árna og Guðrúnar. Hún er langveik og þarf umönnun allan sólarhringinn. Hún hefur ekki greinst með veiruna.

„Ótrúlegt en satt þá virðist hún vera að sleppa en við svo sem gerum okkur alveg grein fyrir því að það gæti bara verið tímaspursmál þangað til að hún veikist því eins og þið sjáið þá er ekkert hægt að víkja neitt frá henni,“ segir Árni.

Ef hún veikist af sjúkdómnum fær Halldóra María líklega stórt flog. „Hún er búin að vera að fá lítil flog undanfarna daga þannig að við erum í viðbragðsstöðu ef það kemur upp að hún fái stórt flog þurfum við að fara upp á spítala og það verður smá pakki.“

Takast á við verkefnið af miklu æðruleysi

Fjölskyldunni heilsast ágætlega og er ánægð eftirfylgni og aðstoðina sem fæst. Guðrún Ósk segir ástandið taka sinn toll - en fjölskyldan tekst á við verkefnið af einskæru æðruleysi.

„Þegar var búið að ákveða að Árni komi aftur heim þegar ég sýktist bjóst ég við að lífið yrði bara miklu auðveldara en það varð það í rauninni ekki neitt. Þetta er bara sama strögglið og verður það áfram næstu daga og vikur.“

Hún segir erfitt að vita til þess að hafa smitað son sinn, og mögulega dóttur seinna meir.

„Þetta er náttúrulega hrikalegt bara. Líka bara vitandi til þess að maður var sá sem smitaði hann og mögulega hana seinna, þetta er náttúrulega mjög leiðinlegt ástand en ekkert hægt að gera í þessu nema að reyna að komast í gegnum þetta.“

Engin skömm í því að smitast

Árni og Guðrún vita ekki hvernig þau smituðust. Þau voru mikið heima við og hittu ekki marga.

Árni segir nauðsynlegt að tala opinskátt um stöðu mála. „Það er engin skömm í því að smitast. Þetta er bara veira sem er í samfélaginu og mun vera núna næstu misseri.“

„Það verða bara komin jól áður en við vitum af. Við verðum bara hér í einangrun,“ segir Guðrún Ósk og hlær.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV