Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonbrigði að smit hafi komið fólki í opna skjöldu

26.08.2020 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Formaður Þroskahjálpar segir mikil vonbrigði að ekki hafi verið búið að gera áætlanir um hvernig eigi að mæta börnum í viðkvæmri stöðu vegna lokunar skóla í kórónuveirufaraldrinum, nú í byrjun skólaársins. Lítið hafi verið um svör frá yfirvöldum.

Lokun skóla og frístundastarfs síðasta vetur höfðu mikil áhrif á fötluð og langveik börn, sem mörg hver þurftu að einangra sig heima hjá sér vegna ástandsins. Nú er nýtt skólaár farið af stað og ljóst að röskun verður áfram á skólahaldi. Skólasetning í þremur grunnskólum í Reykjavík hefur frestast vegna kórónuveirusmits en í einum þeirra er deild fyrir einhverf börn. Þá var Hinu Húsinu, þar sem fötluð ungmenni njóta þjónustu eftir skóla, lokað í byrjun vikunnar vegna smits sem þar kom upp.

„Að það skuli koma fólki svona í opna skjöldu að þegar skólarnir eru opnaðir þá komi upp smit og sóttkvíarástand og annað slíkt, og það sé ekki búið að gera neinar áætlanir veldur okkur virkilega miklum vonbrigðum, vegna þess að það var varað við þessu í vor og það hefði verið svo hægur vandi að vinna sér í haginn og vera tilbúin og undirbúin,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Landsamtakanna Þroskahjálpar.  

Bryndís segir mikið réttlætismál að til séu áætlanir um hvernig eigi að mæta viðkvæmustu hópunum í gegnum þetta tímabil. Annað sé ótækt.

„Það er ekki nóg að hafa almennar áætlanir, það verður að vera viðbragð til að styðja við þá sem þurfa mest á stuðningi að halda,“ segir hún.

Þroskahjálp sendi erindi til menntamálaráðuneytisins vegna málsins í vor, þar sem óskað var eftir viðbragðsáætlunum fyrir veturinn. 

„Við fengum svör að lokum tíunda júní en við erum nú ekki endilega sátt við svörin. Þau eru mjög almenns eðlis. Við skiljum það vel að í upphafi hafi bara verið lokað og þau send heim til foreldra sinna sem þurftu að taka frí úr vinnu til að sinna þeim. En núna erum við komin á annan stað og við eigum að vera með áætlanir hvernig við bregðumst við.“