Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Voðinn vís“ ef samband við áhorfendur næst ekki á ný

Mynd: RÚV / RÚV

„Voðinn vís“ ef samband við áhorfendur næst ekki á ný

26.08.2020 - 15:36

Höfundar

Forseti Bandalags íslenskra listamanna segir að skert menningarstarfsemi vegna COVID-19 sé ekki einungis efnahagslegt vandamál, heldur einnig félagslegt og lýðheilsulegt.

Menningargeirinn á Íslandi hefur farið sérlega illa út úr samkomutakmörkunum vegna COVID-19 en í gær var tekið stórt skref í þá átt að leikhúsin geti opnað dyr sínar á ný þegar tilkynnt var að þeim væri heimilt að hefja á ný æfingar með snertingu.

Rætt var um erfiða stöðu innan menningargeirans á Íslandi í Menningunni á RÚV. Þar undirstrikuðu Erling Jóhannesson, forseti BÍL, og Ása Richardsdóttir, framkvæmdastjóri alþjóðlegu sviðslistasamtakanna IETM, að vandinn sem horfir við menningarstofnunum og listamönnum á Íslandi sé ekki einvörðungu efnahagslegs eðlis. Rétt er að taka fram að umræðurnar áttu sér stað áður en heilbrigðisráðherra tilkynnti nýja reglugerð.

• Sjá einnig: Ný reglugerð töfrar fram bros hjá leikhússtjórum

„Þetta er ekki bara spurning um efnahagslegt mál, heldur líka spurning um félagslegt og lýðheilsulegt mál fyrir þjóðina að fara inn í þennan vetur og hafa aðgang að mannlífi, menningu og félagslífi,“ segir Erling. „Nú erum við búin að herða það verulega á landamærunum að ef að það verður ekki til þess að við getum hitt hvert annað reglulegar og betur þá hef ég sympatíu með þeim sem að efast um þær aðgerðir. Því það hlýtur að vera markmiðið.“

Ása Richardsdóttir tekur undir með Erlingi og segir að ef samband við áhorfendur rofni til lengri tíma geti það haft alvarlegri afleiðingar en efnahagslega lægðin sem hlýst af faraldrinum. „Ef okkur tekst ekki að finna leiðir til að ná þessu sambandi á ný með öðrum hætti – vegna þess að það er augljóst að við þurfum að vinna öðruvísi, við getum ekki verið með sömu stórsýningarnar sem hafa verið í gangi – þá er voðinn vís.“

Rætt var við Erling Jóhannesson, forseta Bandalags íslenskra listamanna, og Ásu Richardsdóttur, framkvæmdastjóri alþjóðlegu sviðslistasamtakanna IETM, í Menningunni á RÚV. 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Ný reglugerð töfrar fram bros hjá leikhússtjórum