Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Var aldrei viss um að ég væri nógu góður“

Mynd: RÚV / RÚV

„Var aldrei viss um að ég væri nógu góður“

26.08.2020 - 13:58
Fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins, Guðjón Valur Sigurðsson, er einn besti handboltakappi sem Ísland hefur alið, og þó víðar væri leitað. Andri Freyr Hilmarsson ræðir við Guðjón um ferilinn og lífið í Með okkar augum í kvöld þar sem Guðjón rifjar upp leiktíð með stórliðum í Evrópu og segist sérstaklega þakklátur fyrir tækifærin sem hann fékk með Kiel og Barcelona.

Guðjón Valur lék sér mikið með fótbolta sem barn en uppgötvaði fljótt færni sína með handboltann. Velgengnin á því sviði var þó ekki færð honum á silfurfati því ferillinn fór hægt af stað fyrstu árin en hann missti aldrei trúna. „Ég var bara varamaður fyrstu árin og langt í frá besti maðurinn í liðinu,“ segir hann. „En ég gafst aldrei upp og hélt alltaf áfram. Þannig varð ég betri með árunum.“

Hann segist ekki vera bardagamaður en lýsir sjálfum sér sem baráttuhundi, og viðurkennir að vera tapsár. „Það venst aldrei að tapa en ég held ég kunni betur með það að fara í dag,“ segir hann. Á glæstum ferli sem nú er á enda hefur hann spilað með stórliðum á borð við Rhein-Neckar-Löwe og Kiel í Þýskalandi og FC Barcelona á Spáni og á hann að baki sigra, fjöldamörg og glæsileg mörk en líka tapleiki með félagsliðum og íslenska landsliðinu.

En hverjar eru stærstu stundirnar á ferlinum, að hans mati? „Tíminn á Akureyri í KA var nánast eins og að vera í skóla, ég lærði svo mikið á lífið og tilveruna,“ segir hann. „En erlendis eru það nokkrir titlar og lið. Það var sérstakur heiður að fá að spila með Kiel og Barcelona sem eru svona stærstu félögin í handboltaheiminum. Ég á erfitt með að velja úr titlum en heiðurinn að fá að spila fyrir svona stór lið er sérstakur í mínum huga og ég var aldrei viss um hvort ég væri akkúrat nógu góður til þess. En mjög glaður að hafa fengið tækifærið.“ Þess má þó geta að Guðjón er níundi markahæsti maður þýsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Hann lagði skóna á hilluna árið 2020 en segir þó að handboltinn eigi alltaf eftir að fylgja honum og vera hluti af honum. „Þar til ég dey verð ég fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og fyrrverandi fyrirliði landsliðsins.“

Allt viðtalið við Guðjón Val má horfa og hlýða á í þættinum Með okkar augum sem er á dagskrá RÚV klukkan 20:00 í kvöld.

Tengdar fréttir

Handbolti

Guðjón Valur í hópi markahæstu frá upphafi

Íþróttir

Guðjón Valur: Þakklátur og fullur tilhlökkunar