Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tjón Akureyrarbæjar rúmur milljarður vegna COVID-19

26.08.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Erfitt verður fyrir sveitarfélög að gera fjárhagsáætlanir í því ástandi sem nú ríkir. Mikið tekjufall vegna farsóttarinnar, launahækkanir og dýrari þjónusta vega þar þungt. Bæjarstjórinn á Akureyri segir faraldurinn hafa kostað bæinn rúman milljarð króna það sem af er þessu ári.

 

Sveitarstjórnir eru nú óðum að taka til starfa eftir sumarfrí og helsta verkefnið er gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár.

Mikið tekjufall og dýrari þjónusta

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri segir að erfitt verði að koma saman fjárhagsáætlun miðað við þær forsendur sem liggi fyrir í dag. Hún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1. Mikið hefur reynt á sveitarfélögin í faraldrinum og hún segir þetta ár verða erfitt fjárhagslega og næsta ár sömuleiðis. „Við erum að sjá mikið tekjufall, við erum að sjá launahækkanir og dýrari þjónustu að mörgu leyti. Allavega á þessu ári út af kórónuveirufaraldrinum.“ 

Mjög dýrt og erfitt ár

Hún segir að tap Akureyrarbæjar það sem af er þessu ári sé mikið. „Það má segja að áhrifin séu vel rúmur milljarður. Þannig að þetta hefur verið mjög dýrt ár og þetta hefur verið erfitt ár.“

Viðbúið að skerða þurfi þjónustu

Því þurfi að meta rækilega hvernig verja eigi fjármunum á næstu árum, hvað eigi að gera og hvernig. Sveitarfélögum sé skylt að veita ákveðna þjónustu samkvæmt lögum, en viðbúið sé að íbúar þurfi að horfa upp á skerta þjónustu næstu mánuði. „Ég get ekki sagt hversu mikla og það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það. En ég held að það þurfi allir að búa sig undir það allsstaðar í landinu að það sé einhver skert þjþónusta. Við erum með minna fjármagn,“ segir Ásthildur.