Þykjast vera fórnarlömb helfararinnar

Mynd með færslu
 Mynd: @Mowgli_Lincoln - Twitter

Þykjast vera fórnarlömb helfararinnar

26.08.2020 - 13:38
Nýjasta trendið á samfélagsmiðlinum TikTok hefur vakið talsverða athygli fyrir það að vera einstaklega óhuggulegt. Notendur miðilsins hafa nefnilega einhverjir tekið upp á því að klæða sig upp, mála sig og þykjast vera fórnarlömb helfararinnar.

Myndbönd af þessu tagi hafa fengið þúsundir áhorfa á TikTok og sum þeirra eru með meira en hundrað þúsund læk. Notendurnir eru oftast málaðir þannig að þeir líti út fyrir að vera skítugir með brunasár, klæðast röndóttum fötum, líkt og gyðingar voru margir klæddir í í fangabúðum nasista, og eru með Davíðsstjörnuna ýmist málaða eða límda á sig. Í myndböndunum tala notendurnir frá sjónarhorni einstaklings sem lést í helförinni, útskýra fyrir áhorfendum hvernig þeir „dóu“, oftar en ekki segja þeir það hafa gerst í gasklefunum í Auschwitz og í einhverjum tilfellum spilast lagið „Locked Out of Heaven“ með Bruno Mars undir. 

Eins og við má búast hafa fjölmargir brugðist harkalega við og tjáð óbeit sína á myndböndunum. Einn twitternotandi segir þau ekki aðeins lítilsvirða söguna heldur vanvirða minningu helfararinnar og þá upplifun sem fólk gekk raunverulega í gegnum. Trend á borð við þetta verði aðeins til þess að draga enn frekar úr þekkingu fólks á því hvers vegna og hvernig gyðingar voru ofsóttir. Flestir notendur væru auk þess illa upplýstir og sorglega fávísir um efnið og væru einungis að gera myndböndin til þess eins að safna lækum og áhorfum. 

Wired ræddi við nokkra notendur sem birtu helfararmyndbönd og spurðu út í hugsunina á bak við birtinguna. Hin 15 ára McKayla frá Flórída sagðist hafa gert sitt myndband til þess að auka skilning og meðvitund á helförinni og til að deila sögu forfeðra sinna. „Ég er mjög heilluð af helförinni og sögu seinni heimsstyrjaldarinnar. Ég á forfeður sem voru í fangabúðunum og hef hitt nokkra sem lifðu af Auschwitz . Mig langaði að dreifa meðvitund og deila raunveruleikanum á bak við búðirnar með því að segja sögu ömmu minnar sem var gyðingur,“ segir McKayla. 

Annar notandi, Taylor Hilman, sem sjálfur er gyðingur, segir við Wired að persónulega finnist honum að myndbönd um helförina eigi að vera vandlega úthugsuð. Margir ungir notendur noti helförina í von um frægð og frama, viti að slík myndbönd fái áhorf sem muni gera þá vinsælli. Í flestum tilfellum séu þeir hins vegar ekki gyðingtrúar og það kemur út eins og þeir séu að gera lítið úr fórnarlömbum helfararinnar. „Mér finnst að það sé mikilvægt að ef einhver ætlar að gera myndband út frá sjónarhorni gyðinga eða út frá heilförinni, þá ætti það að vera einstaklingur sem er gyðingur, ég persónulega á fjölskyldu sem var sett í fangabúðirnar þannig að efnið var nálægt mínu hjarta,“ segir Hilman.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það að „vekja meðvitund“ um ákveðið efni eða það að segjast vera að framleiða fræðandi efni hefur verið notað til þess að réttlæta óhuggulegt og jafnvel ofbeldisfullt efni á samfélagsmiðlum. Þannig vakti það athygli í apríl þegar TikTok notendur sögðust vera að vekja athygli á heimilisofbeldi með því að birta myndbönd af sér með áverka líkt og eftir barsmíðar eða myndbönd þar sem þeir þóttust vera ofbeldisfullir kærastar. Eins hafa svipuð myndbönd birst af notendum TikTok þar sem þeir þykjast vera fórnarlamb árásanna á Tvíburaturnana 11. september 2001.