Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfti úrskurð til að fá Airbnb gögn

26.08.2020 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Skattrannsóknarstjóri metur nú hvort tilefni sé til að grípa til aðgerða vegna vangoldinna skatta vegna útleigu Airbnb íbúða. Upplýsingar um leigugreiðslur vegna hluta þeirra hér á landi bárust embættinu nýlega og námu þær rúmum 25 milljarði á árunum 2015-'18.  Leita þurfti til dómstóla á Írlandi til að fá gögnin afhent.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að embættið hafi óskað eftir gögnunum frá Airbnb á Írlandi snemma árs 2019, en þau fengust ekki afhent. Írsk skattayfirvöld höfðu þá milligöngu um að leita til írskra dómstóla og gögnin fengust síðan eftir úrskurð um að Airbnb bæri að afhenda þau.

„Írsk yfirvöld fóru með þetta fyrir dóm þar sem var gerð nokkurs konar sátt. Hún fólst í því að Airbnb myndi afhenda gögn sem nema þessari fjárhæð, 25,1 milljarði vegna þessara þriggja ára og þau gögn taka til tæplega 80% allra tekna og það eru um 30% þeirra aðila sem greiðslur hafa fengið. Þannig að það eru ekki smæstu aðilarnir sem eru þarna með.“

Spurð hvort óvenjulangan tíma hafi tekið að fá gögnin afhent segist Bryndís ekki geta fullyrt um það. „Það er oft þannig, að þegar verið er að afla gagna erlendis frá, þá tekur þetta tíma. Mismunandi reglur eru á milli landa um hvernig fara á með svona gögn.“ 

Bryndís segir að nú verði gögnin greind og kannað hvort vanhöld hafi verið á skattskilum.  „Það eru dæmi um að aðilar hafi haldið undan tekjum vegna slíkra greiðslna,  þetta er þá leið til að reyna að ná utan um það mengi. Og átta okkur betur á því hvort að þarna sé víða pottur brotinn eða ekki.“

Eigið þið von á að eitthvað slíkt komi í ljós? „Ef að reynslan sýnir okkur eitthvað gerum við ráð fyrir að það hafi verið eitthvað sem þarna þarf að skoða betur.“