Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sprengingin við Miðkvísl: nauðvörn samfélagsins

26.08.2020 - 13:18
Mývetningar fjölmenntu á hátíðarsamkomu við Miðkvísl - Mynd: Úlla Árdal / RÚV
Fimmtíu ár eru síðan Þingeyingar sprengdu Miðkvíslarstíflu í Mývatnssveit. Atburðarins var minnst í Skútustaðahreppi og umhverfisráðherra segir hann kraftaverk í íslenskri náttúruvernd.

Fimmtíu ár eru frá því hópur Þingeyinga sprengdi Miðkvíslarstíflu. Miðkvísl er ein þriggja kvísla Laxár þar sem áin fellur úr Mývatni en stíflan var rétt neðan við útfallið.

Sprengingin var einn afdrifaríkasti atburður Laxárdeilunnar svokölluðu þar sem takist var á um hvort varðveita skyldi Mývatns- og Laxársvæðið eða virkja það til raforkuframleiðslu. Sprengingin og deilan er talin marka þáttaskil í íslenskri náttúruverndarsögu. Í framhaldinu var fallið frá áformum um frekari virkjanir og lög sett um verndun Laxár og Mývatns. Atburðarins var minnst með hátíðarsamkomu við Miðkvísl í Skútustaðahreppi í gær, þann 25. ágúst. 

Nauðvörn samfélagsins

Við tilefnið þakkaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, Mývetningum fyrir hugrekkið sem þeir sýndu fyrir 50 árum. „Ég held að á þessum tíma hafi þetta verið nauðvörn samfélags sem var búið að ákveða að fórna, og öllu því umhverfi sem því fylgdi - Laxánni, Mývatninu - með stórkarlalegum áformum um að gera Mývatn í rauninni að uppistöðulóni. Þannig að ég held að það sé alveg ljóst að hér, í rauninni, þrátt fyrir að um nauðvörn samfélagsins hafi verið að ræða, var í rauninni framkvæmt kraftaverk í íslenskri náttúruvernd,“ segir Guðmundur. 

Þegar hann er spurður hvort hann mælist til þess að fólk andvígt virkjunaráhrifum grípi til svo róttækra aðgerða segist hann ekki vera að mæla með einu eða neinu. Það sé hins vegar eðlilegt að bregðast við þegar um jafn groddalegt inngrip sé að ræða. „Hérna varð kraftaverk að það var hægt að bjarga þessu svæði og ég er mjög þakklátur Mývetningum fyrir það,“ segir hann. 

Töldu að verkið yrði fljótunnið

Ingi Þór Yngvason var 18 ára þegar hann tók þátt í að sprengja stífluna. „Það var nú bara þennan dag sem að fundarboðið barst. Þá var því hvíslað frá manni til manns að um kvöldið skyldu menn mæta við Miðkvísl og fjarlægja þessa stíflu sem þar var. Það var handvalið í þennan hóp því þarna máttu ekki aðrir vera, náttúrlega, en þeir sem voru málstaðnum trúir,“ segir Ingi Þór. 

Hann segir stóran hóp fólks hafa mætt með haka og skóflur og eina dráttavél. Ekki hafi verið talið mikið verk að fjarlægja stífluna því þetta væri nú bara jarðvegsstífla að mestum hluta. Annað hafi komið í ljós því inni í stíflunni hafi verið öflugur steinsteyptur veggur. Þá hafi mönnum fljótt verið ljóst að dýnamít yrði að koma til sögunar. Ingi Þór segir hans helsta hlutverk hafa verið að finna dýnamít til að nota en vitað var að virkjunaraðilinn sjálfur hafi geymt sprengiefni á staðnum. 

Ingi Þór Yngvason, mývetningur, meindýraeyðir, tók þátt í sprengingunni við Miðkvísl
Ingi Þór Yngvason tók þátt í því að sprengja stífluna fyrir 50 árum.

Sigurtilfinning þegar stíflan gaf sig

Hann segir létti og sigurtilfinningu hafa hríslast um fólk þegar stíflan gaf sig. Loksins myndi eitthvað breytast í þessari illvígu deilu og einhver skriður komast á málin, sem varð, enda urðu straumhvörf í málinu og náttúruvernd á Íslandi.

Ef þú hugsar til baka núna, voru þetta ekki galin áform? „Nei, þetta var bara nauðsynleg aðgerð. Þegar mönnum er stillt svona upp við vegg eins og þarna var, verða menn bara að grípa til neyðarréttarins, tel ég,“ segir Ingi Þór. Hann myndi því endurtaka leikinn.