Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjúkraliðar á hjúkrunarheimilum ræða verkfallsaðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir mikla óþreyju vera meðal sjúkraliða sem starfa hjá stofnunum sem falla undir Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samningar þeirra hafa verið lausir frá því í mars í fyrra. Rætt hefur verið um að boða til aðgerða.

 

Um er að ræða um 300 sjúkraliða sem starfa meðal annars á elli- og hjúkrunarheimilum. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í lok júní og síðast var fundað í morgun. Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir lítinn árangur hafa náðst á þeim fundi.

„Það sem helst ber á milli eru byrjunarlaun sjúkraliða og svo erum við líka í samtali um ákvæði sem varðar yfirvinnu. Þá getum við ekki fallist á það að byrjunarlaun sjúkraliða verði lægri en byrjunarlaun félagsliða. Og þar stendur eiginlega hnífurinn í kúnni,“ segir Sandra.

Sandra segir að ef samningar fari ekki að nást sé tímabært að huga að aðgerðum. Þungt hljóð sé í sjúkraliðum. „Þeir eru orðnir verulega óþreyjufullir eftir því að fá samninginn sinn og sínar kjarabætur,“ segir Sandra.

Hafið þið íhugað að grípa til einhverra aðgerða? „Já, það hefur verið rætt, en við ætlum að reyna til þrautar að ná samkomulagi.“

Hvaða aðgerðir hafa verið ræddar? „Það hefur verið rætt hvort það eigi að grípa til verkfallsaðgerða.“

Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður eftir rúma viku, á fimmtudaginn 3. september.