Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Píra bara augun og setja sokkana yfir buxnaskálmarnar“

26.08.2020 - 10:08
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚv
Mývargurinn hefur verið óvenjugrimmur í Skútustaðahreppi upp á síðkastið og meira að segja innfæddir hafa dregið upp flugnanet. Líffræðingur segir varginn þó hafa sýna kosti, hann bíti ekki innandyra.

Rykmý við Mývatn hefur verið í góðu meðallagi í sumar. Öðru máli gegnir um bitmýið sem hefur verið yfir meðallagi og plagað og bitið heimamenn meirihluta ágústmánaðar. „Þetta er seinni gangan sem er að koma núna úr ánni og hún er óvenju dugleg, óvenju sterkar flugur, óvenju mikið af þeim,“ segir Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.

Heimamenn með skýlur

Ástæðan er mikið blábakteríumor eða leirlos í Mývatni. Bakteríurnar svífa í vatninu og gera það grænt á litinn. Þær eru fæða fyrir bitmýslirfur - og því meiri fæða því meira bitmý. Það var líka mikill vargur í vor, þá sagði heimamaður við fréttastofu að það væri farið að harðna á dalnum þegar Mývetningar væru farnir að ganga með vargskýlur.

Sjá einnig: Mývargur veltur inn úr gluggakistum í Mývatnssveit

„Menn píra bara augun og setja sokkana yfir buxnaskálmarnar og svona harka þetta af sér. En láta helst ekki sjá sig með vargskýlu,“ segir Árni kíminn, þegar hann er spurður að því hvernig heimamenn takist á við flugurnar. Varginn segir hann misjafnan eftir dögum, enda spili veður, hita- og rakastig inn í. Þá sé hann miságengur milli ára. „Núna í ár hefur hann verið óvenjulega grimmur og menn hafa verið að kvarta mikið undan honum, hann bara kemur og bítur og er bara mjög hress,“ segir hann. 

Hægt að leita skjóls innandyra

Mývargurinn hafi þó sína kosti. Hann bíti ekki innandyra, það sé því alltaf hægt að flýja hann með því að fara inn í bíl eða hús. Ólíkt lúsmýi eða moskítóflugum erlendis sem komi inn og bíti fólk á nóttunni.  

Áhrifa mýsins gætir líka út fyrir sveitarfélagið. Starfsmenn Vaðlaheiðarganga hafa lent í vandræðum með að greina bílnúmer á bílum sem eiga leið um Mývatnssveit. Sjálfvirkir lesarar hafa einnig brugðist, enda hægara sagt en gert að lesa af númeraplötu sem er þakin flugum.