Óttast gríðarlega eyðileggingu þegar Lára nær landi

26.08.2020 - 15:19
Mynd: NOAA / NOAA
Talið er að fellibylurinn Lára verði orðinn að fjórða stigs fellibyl þegar hann kemur upp að strönd Bandaríkjanna síðar í dag. Óttast er að eyðilegging af völdum hans verði gríðarleg.

Hitabeltisstormurinn Lára náði styrk fellibyls í gær og hefur síðan sótt hratt í sig veðrið. Lára hefur þegar valdið miklum usla og orðið 25 að bana á Haíti og Dóminíska lýðveldinu. Íbúum víða í Texas og Louisiana í Bandaríkjunum hefur verið gert að yfirgefa heimili sín og neyðarskýli verið opnuð. Þar er að mörgu að hyggja svo einnig megi tryggja sóttvarnir vegna kórónuveirufaraldursins. Þeir sem geta eru því hvattir til að leita á hótel og gistiheimili.

Greg Abbot, ríkisstjóri Texas, varaði íbúa ríkisins við því í dag að vindstyrkur Láru yrði enn meiri en í fellibylnum Harvey sem reið yfir fyrir þremur árum. Þá létust 68 í miklum flóðum. Í New Orleans eru íbúar við öllu búnir, minnugir þess þegar fellibylurinn Katrína olli þar mikilli eyðileggingu árið 2005. 

Miðstöð fellibylja í Bandaríkjunum varar við því að í ár gæti verið von á allt að 25 fellibyljum á svæðinu. Lára er sá tólfti sem mælist hingað til. Búist var við að annar fellibylur, Marco, myndi ná landi í Bandaríkjunum fyrr í vikunni en hratt dró úr styrk hans áður en til þess kom. Það kom í veg fyrir að tveir fellibyljir færu samtímis yfir svæðið, í fyrsta sinn síðan mælingar hófust fyrir 150 árum.

epa08625737 People board a bus during evacuations, ahead of the arrival of Hurricane Laura, in Lake Charles, Louisiana, USA, 25 August 2020. Hurricane Laura is predicted to make landfall near the Louisiana-Texas border on 27 August 2020.  EPA-EFE/DAN ANDERSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íbúar í Louisiana yfirgefa heimili sín vegna Láru.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi