Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Öllum leikjum kvöldsins í NBA frestað

Mynd með færslu
 Mynd: NBA - Twitter

Öllum leikjum kvöldsins í NBA frestað

26.08.2020 - 21:55
Forráðamenn NBA-deildarinnar hafa ákveðið að fresta öllum þremur leikjunum sem áttu að fara fram í úrslitakeppninni í Disney World í Flórída í kvöld. Ákvörðunin er tekin í ljósi þess að leikmenn Milwaukee Bucks ákváðu að sniðganga leik liðsins við Orlando Magic í mótmælaskyni.

Milwaukee Bucks átti að mæta Orlando í fimmta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í kvöld. Leikmenn og þjálfarar Milwaukee mættu ekki út á völlinn til upphitunar og þegar kynna átti liðin sátu þeir sem fastast í búningsklefa sínum.

Fulltrúar deildarinnar gengu á þeirra fund og fengu að vita að liðið ætlaði sér að sniðganga leikinn í mótmælaskyni við skotárásina í Kenosha á sunnudag. Leikmenn Orlando yfirgáfu völlinn svo skömmu síðar. Aðeins rúmir 60 kílómetrar eru á milli Milwaukee og Kenosha. Eftir árásina hafa margir leikmenn deildarinnar lýst sorg sinni vegna ástandsins og hafði sniðganga verið rædd hjá öðrum liðum.

Forráðamenn NBA-deildarinnar ákváðu í kjölfar sniðgöngu Milwaukee að fresta öllum leikjum kvöldsins og verður þeim fundinn nýr tími. Auk leiks Milwaukee og Orlando áttu Houston Rockets og Oklahoma City Thunder að mætast og Los Angeles Lakers áttu að mæta Portland Trailblazers.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Neituðu að spila vegna skotárásar lögreglu

Erlent

Maður sem lögregla skaut í Wisconsin er lamaður

Norður Ameríka

Lögregla skaut mann í bakið