Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leggja til bann við okri á tímum hættuástands

26.08.2020 - 10:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er fyrsti flutningsmaður nýs frumvarps á Alþingi, þar sem lagt er til að okur verði bannað. Bannið nái til allra sölu- og þjónustuaðila á tímum hættuástands í þjóðfélaginu.

Verði frumvarpið að lögum fær ríkislögreglustjóri heimild til þess að ákvarða hámarksverð tiltekinna vara þegar eftirspurn hefur aukist eða þegar verulega hefur dregið úr framboði.

Í frumvarpinu er auk þess lagt til að öllum skuli tryggður aðgangur að sóttvarnarbúnaði. Þeim sem ekki fari að lögunum eða brjóti gegn fyrirmælum yfirvalda skuli sæta sektum, að lágmarki 100 þúsund og að hámarki 10 milljóna króna.

Hver sá sem okrar í viðskiptum með nauðsynjar, sóttvarnavörur eða aðrar vörur sem stuðla að vernd gegn yfirvofandi hættu, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

Freistnivandi á tímum hættuástands

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þegar hættuástand ríki geti það haft veruleg áhrif á verð tiltekinna vara. Við slíkar aðstæður kunni freistnivandi að skapast hjá aðilum sem framleiða eða sitji á birgðum og þeir freistist til að selja vörur á yfirverði. Samfélagslegt tjón geti aukist og slík staða valdið fjártjóni hjá almenningi.

Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafi fréttir borist af því að verð á sóttvarnavörum, grímum, spritti og fleiru hafi hækkað og söluaðilar hamstrað til sín slíkar vörur í von um aukinn ágóða.

Almennt megi þó gera ráð fyrir að aðilar á markaði séu samfélagslega meðvitaðir og selji vörur á sanngjörnu verði. En þegar slíkur freistnivandi sé fyrri hendi þá þurfi löggjöf að vera til staðar, sem veiti stjórnvöldum færi á að grípa í taumana, segir í greinargerð með frumvarpi Ingu Sæland og Flokks fólksins.