Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Keyra frá Búðardal í Borgarnes til að versla í matinn

26.08.2020 - 14:45
Myndir teknar með dróna.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Stór hluti íbúa í Dalabyggð hefur ritað nafn sitt á mótmælalista þar sem því er mótmælt að Krambúðin hafi tekið við af Kjörbúðinni í Búðardal með tilheyrandi verðhækkunum. Margir hafa hætt að versla í heimabyggðinni.

Íbúarnir eru ósáttir við, að samkvæmt könnun sem þeir hafa gert, hefur verð hækkað um allt að 25 prósent. Margir hafa því hætt að versla í Krambúðinni og keyra frekar langar vegalendir eftir matvöru þar sem hún er ódýrari.

„Ekki gott fyrir samfélagið“

Baldvin Már Guðmundsson, sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni, segir að breyting á verslun Samkaupa úr Kjörbúð í Krambúð hafi komið íbúum á óvart. Þetta hafi haft talsverð fjárhagsleg áhrif hjá fólki. „Þetta er ekki gott fyrir samfélagið okkar hérna,“ segir hann í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.

Margir farnir að versla í Borgarnesi

Hann segir að margir séu farnir að versla í Borgarnesi en þangað séu um 80 kílómetrar. Fólk leggi því á sig nærri tveggja klukkutíma ferðalag, fram og til baka, til þess að kaupa í matinn. „Það getur algerlega borgað sig þegar verðhækkanir eru orðnar svona miklar á nauðsynjavörum,“ segir Baldvin. Og það séu ekki bara íbúar sem kvart yfir verðlaginu í Krambúðinni, heldur finnist ferðamönnum dýrt að versla þar.

Vilja fá Kjörbúðina aftur

Baldvin segir að eina krafan sé að Krambúðinni verði aftur breytt í Kjörbúð.  „Við vorum bara býsna ánægð með Kjörbúðina. Þar var gott vöruúrval, verðið var bara allt í lagi og það var engin ástæða til þess að fara til dæmis í Borgarnes. Fólk var bara ánægt með þessa búð og fólk var farið að koma lengra að úr næsta nágrenni og þetta var bara alltsaman ágætt, þannig lagað. Svo komu bara þessi ósköp yfir okkur.“