Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hundrað manns fórust í flóðum í Afganistan

26.08.2020 - 18:05
epa08626886 Afghan family members look for belongings after heavy floods in the Charikar city of Parwan province, Afghanistan, 26 August 2020. According to local officials, at least 78 people were killed and dozens wounded in heavy floods on 26 August that also destroyed hundreds of houses and roads.  EPA-EFE/HEDAYATULLAH AMID
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hundrað manns, hið minnsta, létust í flóðum í norðurhluta Afganistans í nótt. Fjölda er enn saknað. Mikið úrhelli hefur verið síðustu daga. Flóðin riðu yfir snemma í morgun þegar flestir voru enn í fastasvefni.

Verst er ástandið í Parwan-héraði. Yfir fimm hundruð hús eru ónýt og um þúsund manns því heimilislaus. Unnið er í kapp við tímann að leita fólks í rústum húsa.

Fjöldi fólks í borginni Charikar í Parwan-héraði fylgist með þegar stórvirkar vinnuvélar grafa upp rústirnar í leðjunni, í þeirri von að ástvinir þeirra finnist. 

Mikil úrkoma hefur einnig verið í nágrannaríkinu Pakistan að undanförnu og hafa yfir þrjátíu manns farist í flóðum þar á síðustu þremur vikum. 

Ástandið í Afganistan var slæmt fyrir, bæði vegna faraldursins og árása talibana undanfarið. Níutíu manns hafa farist í árásum þeirra síðustu tvær vikur. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir