Hundrað manns, hið minnsta, létust í flóðum í norðurhluta Afganistans í nótt. Fjölda er enn saknað. Mikið úrhelli hefur verið síðustu daga. Flóðin riðu yfir snemma í morgun þegar flestir voru enn í fastasvefni.
Verst er ástandið í Parwan-héraði. Yfir fimm hundruð hús eru ónýt og um þúsund manns því heimilislaus. Unnið er í kapp við tímann að leita fólks í rústum húsa.
Fjöldi fólks í borginni Charikar í Parwan-héraði fylgist með þegar stórvirkar vinnuvélar grafa upp rústirnar í leðjunni, í þeirri von að ástvinir þeirra finnist.
Mikil úrkoma hefur einnig verið í nágrannaríkinu Pakistan að undanförnu og hafa yfir þrjátíu manns farist í flóðum þar á síðustu þremur vikum.
Ástandið í Afganistan var slæmt fyrir, bæði vegna faraldursins og árása talibana undanfarið. Níutíu manns hafa farist í árásum þeirra síðustu tvær vikur.