Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Félögin fimm krefjast að Rio Tinto standi við hækkunina

Mynd með færslu
OECD telur framleiðni vera í lagi í áliðnaði. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fundi samninganefnda fimm stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Rio Tinto á Íslandi hjá ríkissáttasemjara lauk á tólfta tímanum í morgun. Kolbeinn Gunnarsson formaður Hlífar, sem er eitt félaganna fimm, sagði eftir fundinn að um hefði verið að ræða stöðufund, en þetta var fyrsti fundurinn í deilunni frá því að henni var vísað til ríkissáttasemjara. Félögin krefjast þess að Rio Tinto standi við hækkun sem samið hafði verið um með skilyrðum.

Alls er um að ræða 400 starfsmenn og félögin eru, auk Hlífar, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsambandið fyrir hönd Félags íslenskra rafvirkja, Félag iðn- og tæknigreina og VR. Kolbeinn segir að öll félögin séu sammála um að halda fast í kröfu um 24.000  króna launahækkun sem samið hafði verið um í mars með þeim fyrirvara að Rio Tinto næði nýjum raforkusamningum við Landsvirkjun fyrir lok júní. 

Þegar þeir samningar náðust ekki, féll kjarasamningurinn úr gildi 1. júlí. Síðan þá hefur enginn árangur náðst í kjaraviðræðum og vísuðu félögin fimm deilunni til ríkissáttasemjara í ágúst. „Við vísuðum til ríkissáttasemjara vegna þess að sá kjarasamningur, sem við samþykktum í mars féll úr gildi í lok júní og ekkert hefur gerst síðan þá,“ segir Kolbeinn.

Hann segir að á fundinum í morgun hafi verið farið yfir stöðu mála og ríkissáttasemjari hafi boðað til næsta fundar 4. september. „Menn fara með það veganesti heim hvað sé hægt að gera í stöðunni,“ segir Kolbeinn.

Spurður hverjar helstu kröfur félaganna séu segir hann að staðið verði fast við kröfuna um 24.000 króna launahækkunina. „Svo er spurning um til hversu langs tíma verður samið. Við erum opin fyrir öllu.“