Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eyrnamerkja þrjú þúsund námspláss fyrir atvinnulausa

Mynd: RÚV / RÚV
Þeim sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur býðst að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Vinnumálastofnun hefur eyrnamerkt þrjú þúsund námspláss í menntakerfinu fyrir þennan hóp.

Fólki beint inn á námsbrautir eftir þörfum

6,2 milljörðum króna verður varið í átakið sem kallast Nám er tækifæri og er þessum hópi beint inn á námsbrautir þar sem skortur er á vinnuafli. „Við erum að tala þar um iðn- og raungreinanám, við erum að tala um nám í heilbrigðisgreinum, kennslufræðum og fleira sem að spár hafa sýnt, OECD og fleiri hafa fjallað um, að verði veruleg þörf á fólki með slíka menntun á næstu árum og áratugum,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í viðtali í tíufréttum í gær.

Fá atvinnuleysisbætur í eina önn

Þeir sem þetta kjósa fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn og eftir það tekur Menntasjóður námsmanna við, en ekki er gerð krafa um að umsækjendur ljúki námi, heldur einungis þeirri önn sem þeir fá atvinnuleysisbætur. Svo námslán skerðist ekki hefur frítekjumark verið hækkað úr 4,1 milljón í 6,8 milljónir. Úrræðið hefur aukinheldur ekki áhrif á bótarétt og nýtingu hans. 

Ekki er vitað hversu margir koma til með að sækja um úrræðið en búið er að tryggja fjármögnun fyrir allt að þrjú þúsund atvinnuleitendur. Þörfin gæti þó verið til staðar því ríflega helmingur þeirra sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur hefur einungis lokið grunnskólanámi.  

„Við erum að taka þrisvar sinnum stærra úrræði heldur en að gert var í hruninu, þannig að við erum að taka þrisvar sinnum stærri pakka. Við erum meðvituð um að þetta er stór aðgerð en ef að þörf er á munum við að sjálfsögðu bregðast við,“ sagði Ásmundur.