Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

90 prósenta ríkisábyrgð af 16 milljarða lánalínu

26.08.2020 - 07:14
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Í frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga sem birt var í gærkvöldi er lagt til að veitt verði 90 prósenta ríkisábyrgð af ríflega 16 milljarða lánalínu til reksturs Icelandair. Nemur heildarábyrgð ríkisins vegna lánalínunnar 15 milljörðum króna.

Ríkið setur þau skilyrði að eingöngu megi nota lánalínuna til að fjármagna rekstur. Ekki má ráðast í fjárfestingar og félagið má ekki greiða út arð á meðan lánalínan er virk, eða fram í september árið 2022. 

Í frumvarpinu kemur fram að búist sé við að það fé sem safnist í fyrirhuguðu hlutafjárútboði muni duga félaginu til næstu tveggja ára. Ekki muni því reyna á ábyrgðina nema að rekstur félagsins gangi verr en áætlanir gera ráð fyrir. Ábyrgðinni sé ætlað að skapa rekstraröryggi og laða að fjárfesta.

Komi til þess að Icelandair gangi á lánalínuna tekur ríkið veð í tilteknum eignum félagsins, það er vörumerkinu Icelandair, vefslóð fyrirtækisins og lendingarheimildir í London og New York. 

Ríkið setur þau skilyrði að eingöngu megi nota lánalínuna til að fjármagna rekstur. Ekki má ráðast í fjárfestingar og félagið má ekki greiða út arð á meðan lánalínan er virk, eða fram í september árið 2022. 

Engar skuldir afskrifaðar

Icelandair Group fékk engar skuldir afskrifaðar í samningaviðræðum við lánardrottna í sumar. Morgunblaðið hefur eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að félagið verði í sterkri stöðu ef hlutafjárútboð, sem er fyrirhugað í september, heppnast vel. Hann segir örlög Icelandair þó ekki ráðast með útboðinu og að félagið gæti starfað þótt ekki söfnuðust þeir 23 milljarðar sem stefnt er að.