Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

4 þúsund tonn af koldíoxíði verða að steini

26.08.2020 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Carbfix og Orka náttúrunnar hafa gengið til samstarfs við svissneska fyrirtækið Climeworks, sem sérhæfir sig í að fanga lofttegundina koldíoxíð CO2 úr andrúmsloftinu og farga henni varanlega.

Fyrirtækin hafa gert samning um uppbyggingu nýrrar verksmiðju á Hellisheiði, sem dælir koldíoxíðinu niður í berglög, þar sem það verður að steini í iðrum jarðar.

Gert er ráð fyrir að verksmiðjan fargi um fjögur þúsund tonnum af koldíoxíði með þessum hætti árlega, en CO2 er sú gróðurhúsalofttegund sem hefur hvað mest áhrif á hlýnun jarðar.

Þróun tækninnar og uppbygging verksmiðjunnar á Hellisheiði eru því skref í baráttunni gegn hamfarahlýnun, en í fyrsta sinn verður sérþróuð tækni samþætt í verkefni af þessari stærðargráðu.

Tímamót í loftslagsmálum

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, segir að verkefnið marki tímamót í loftslagsmálum því aðferðin geti reynst mikilvægt tæki í baráttunni við hlýnun jarðar.

Hún segir að vísinda- og tæknifólk Orkuveitu Reykjavíkur, Orku náttúrunnar og Carbfix, hafi síðustu þrjú árin unnið að undirbúningi verkefnisins með svissneska nýsköpunarfyrirtækinu Climeworks, sem hafi fengið aðstöðu í Jarðhitagarðinum við Hellisheiðarvirkjun.

Samningurinn við Climeworks sýni hvernig nýsköpun og samstarf þvert á landamæri geti skapað lausnir sem skipti máli við að leysa eina stærstu áskorun okkar tíma.

Í fyrsta skipti verði tækni Carbfix og Climeworks samþætt í verkefni af þessari stærðargráðu og sérþróaðri tækni beitt. Hellisheiðarvirkjun tryggi orkuna sem muni knýja tækjabúnaðinn áfram.

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn
Berglind Rán Ólafsdóttir og Edda Sif Aradóttir voru gestir í Morgunútvarpinu á Rás 2 miðvikudaginn 26. ágúst 2020.

Geti haft úrslitaáhrif

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, segir að þótt slíkt verkefni eitt og sér leysi ekki loftslagsvána sé tæknin og notkun hennar á heimsvísu nauðsynlegt skref ef alþjóðasamfélagið ætli að mæta markmiðum Parísarsáttmálans.

Verkefnið geti haft úrslitaáhrif þegar kemur að því að uppfylla skuldbindingar sáttmálans, enda sé þegar búið að kortleggja þær fjölþættu aðgerðir sem grípa þurfi til.

Þær felist einkum í því að minnka losun frá orku- og iðnaðarstarfsemi og fara í orkuskipti í samgöngum. „Samhliða er líka mikilvægt að draga úr styrk koldíoxíðsins sem þegar er í andrúmsloftinu og sérstaklega þegar nær dregur miðri öldinni þarf sú tækni sem Climeworks er að þróa að vera tilbúin til að hægt sé að beita henni á mjög stórum skala,“ segir Edda.

Í stað þess að farga koldíoxíði beint úr útblæstri líkt og Carbfix hafi verið að gera til þess að minnka útblástur frá Hellisheiðarvirkjun, hreinsi aðferðin, sem nefnist Direct Air Capture, CO2 beint úr andrúmsloftinu.

„Aðferð Climeworks virkar í raun eins og loftsuga, sem hreinsar koldíoxíð sem við höfum þegar sleppt frá okkur úr andrúmsloftinu. Við dælum koldíoxíðinu svo niður í berglög þar sem náttúruleg ferli umbreyta því í stein á innan við tveimur árum,“ segir Edda Sif.

Loftslagsváin alheimsvandamál

Berglind segir: „Nú erum við á spennandi tímamótum því verkefnið er að fara úr tilraunaskala, þar sem við höfum verið að prófa okkur áfram með því að dæla litlu magni niður í jörðina. Nú mun auknu magni verða dælt niður, sem er mikilvægt skref.“

„Það er búið að sýna fram á að þetta virkar og aðferðin getur orðið mikilvægt tæki til þess að stemma stigu við hamfarahlýnuninni, sem er eitthvað sem við erum öll farin að hugsa um núna sem betur fer,“ segir Berglind.

Edda Sif segir að markmiðið með samstarfinu sé að stórauka notkun tækninnar hérlendis, en ekki síður erlendis. „Það sem er skemmtilegt við þetta samstarfsverkefni er að það aftengir staðsetningu á losun frá því hvar við förgum koldíoxíði. Það er nefnilega þannig að það skiptir ekki máli, ef við horfum á jörðina sem eina heild, hvar við sleppum koldíoxíði út í andrúmsloftið.“

„Loftslagsváin er alheimsvandamál og þess vegna er mikilvægt að fram sé komin tækni sem hreinsar andrúmsloftið, því nú verður mögulegt að nýta landsvæði og berglög þrátt fyrir að ekki sé neinn stórlosandi koldíoxíðs á sama svæði,“ segir Edda Sif að lokum.