Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þýskaland gefur út græn skuldabréf

25.08.2020 - 16:39
epa04736228 (FILE) A file photo dated 02 March 2012 shows steam and fumes emerging from the brown coal-fired power plant Niederaussem operated by RWE near Bergheim, Germany. Global carbon dioxide concentrations surpassed 400 parts per million in March
 Mynd: EPA - EPA FILE
Þýskaland hefur hafið útgáfu svonefndra grænna skuldabréfa en þau eiga að hvetja fjárfesta og fyrirtæki til að beina fjármagni í umhverfisvæn og sjálfbær verkefni. Þýskaland stígur þar með í fyrsta sinn inn á markaðinn með græn skuldabréf.

Grænu bréfin eru hluti viðbragða alþjóðasamfélagsins við loftslagsvánni og mun það hafa umtalsverð áhrif að Þýskaland leggi lóð á vogarskálarnar, þar sem um er að ræða fjórða stærsta hagkerfi heims og hið stærsta í Evrópu.

Allt að 11 milljörðum evra, um 1800 milljörðum íslenskra króna, verður varið í verkefni sem uppfylla langtímamarkmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Við mat á verkefnum er tekið mið af Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og reglum SÞ um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment).

55% minni útblástur árið 2030

Útgáfa Þýskalands er hluti af loftslagsáætlun stjórnvalda þar sem 54 milljörðum evra, um níu þúsund milljörðum íslenskra króna, verður varið á næstu þremur árum til þess að takast á við áhrif loftslagsbreytinga og sporna við afleiðingum hlýnunar jarðar.

Áætlunin gerir meðal annars ráð fyrir nýju kolefnisgjaldi og miðar að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030, frá því sem hann var árið 1990.

Fjármálamarkaðir í lykilstöðu

Fulltrúar allflestra ríkja heims samþykktu Parísarsáttmálann í desember árið 2015. Þar með skuldbundu ríkin sig til þess að grípa til margvíslegra aðgerða og gera áætlanir svo draga megi úr aukningu gróðurhúsalofttegunda og notkun jarðefnaeldsneyta.

Fjármálamarkaðir heimsins eru í ákveðinni lykilstöðu þegar kemur að því að stýra ákvörðunum um hvert beina skuli fjármagni og geta því aðstoðað ríkin við að uppfylla skuldbindingar Parísarsáttmálans.

Útgáfa grænna skuldabréfa eru ein aðferð til þess að stýra fjármagninu í umhverfsvæn verkefni og leið til þess að þrýsta á fjármálafyrirtæki, ríki og sveitarfélög til að leggja áherslu á samfélagsleg og umhverfisvæn sjónarmið við ákvarðanatöku.

Umhverfisvottaðar fjárfestingar

Grænu skuldabréfin virka með sama hætti og hefðbundin skuldabréf nema að vottað er að andvirði útgáfu þeirra renni til umhverfisvænna verkefna og aðgerða gegn loftslagsbreytingum. 

Útgáfa slíkra bréfa hófst fyrir 12 árum þegar ljóst var að nýta mætti krafta fjármálamarkaða með þessum hætti í baráttunni við hlýnun jarðar og hefur útgáfan stóraukist á undanförnum árum.

Á Íslandi eru græn bréf um 1% af heildarútgáfu og hafa Reykjavíkurborg, Landsvirkjun, Orkuveitan og Lánasjóður Sveitarfélaga gefið út slík bréf.

70 þúsund milljarða króna markaður

Í skýrslu Alþjóðabankans kemur fram að heildarverðmæti markaðar með græn skuldabréf hafi á árinu 2018 farið yfir 500 milljarða bandaríkjadollara, um 70 þúsund milljarða króna.

Áhugi fjárfesta hefur aukist ár frá ári og útgáfan vaxið á heimsvísu. Hún er þó enn innan við 1% af heildarmarkaði með skuldabréf í heiminum.

Með því að gera grænu bréfin að valkosti fyrir fjárfesta, vill Alþjóðabankinn leggja áherslu á að málefni loftslagsins, sjálfbærni og umhverfisverndar eiga heima í hringiðu fjármálamarkaða, hjá stjórnendum sem taka ákvarðanir um fjárfestingar til framtíðar. Það mun aðstoða ríkin í því að ná markmiðum alþjóðasamfélagsins í baráttunni við hlýnun jarðar.

Áskoranir vegna kórónuveirufaraldurs

Alþjóðabankinn telur að græn og umhverfisvæn nálgun í fjárfestingum geti auk þess nýst ríkjum heims við að takast á við þær fjölþættu áskoranir sem þau standi frammi fyrir vegna kórónuveirufaraldursins.

Framsæknar lausnir sem hafa orðið til og þróast í tengslum við útgáfu grænna skuldabréfa og umhverfisvæna fjármögnun, geti verið leiðarljós þegar kemur að því að endurbyggja efnahag ríkjanna í kjölfar faraldursins.

Á næsta áratug verði ríki heims þannig að standa fyrir umbreytingu efnahagskerfa, ráðast í orkuskipti í samgöngum, draga úr notkun jarðefnaeldsneyta og beina fjárfestingum í vottuð verkefni þar sem hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun er að lögð til grundvallar.